Markmið skólans er að pólsk börn sem búa á Íslandi fái kennslu í móðurmáli sínu, pólskri sögu, landafræði Póllands og menningu,“ segir í erindi frá Vinafélagi Pólska skólans þar sem óskað er eftir styrk frá Garðabæ til reksturs skólans.

Í vinafélaginu eru foreldrar barna í Pólska skólanum og kennarar skólans. Kennt er á laugardögum í Fellaskóla í Reykjavík. Auk höfuðborgarinnar eru nemendur frá Kópavogi. Hafnarfirði, Reykjanesbæ, Grindavík, Akranesi og Garðabæ. Að því er fram kemur í erindinu hefur skólinn fengið viðurkenningu frá Reykjavíkurborg fyrir starf sitt. Fjármögnunin sé byggð á gjöldum sem foreldrar og forráðamenn greiði.

„Að öðru leyti hefur skólinn leitað til pólska sendiráðsins og velunnara, þar með talið pólskra stofnana, um stuðning,“ segir áfram. Á þessu skólaári séu margir að ljúka menntun sinni í Pólska skólanum. Ætlunin sé að veita nemendum verðlaun og safna fé til að kaupa bækur og annað kennsluefni.

„Því erum við að snúa okkur til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga með vinsamlegri beiðni um að styrkja verkefnið í formi fjármagns eða hlutum sem gætu verið góðar útskriftargjafir fyrir nemendur okkar,“ segir vinafélagið og býður í staðinn viðurkenningu á framlaginu og kynningu á vefsíðu skólans.

„Við trúum því að stuðningur þinn muni hjálpa okkur að að ná fram skilgreindum markmiðum og framkvæma fyrirhuguð verkefni og muni vera framlag til þróunar og menntunar næstu kynslóðar Pólverja á Íslandi,“ segir Vinafélag Pólska skólans.

Bæjarráð Garðabæjar vísaði styrkumsókninni til afgreiðslu bæjarstjóra.