Arthúr Björgvin Bollason rithöfundur á sjötugsafmæli í dag og segir það bara ánægjulegt. „Ég er hins vegar ósáttur við orðið afmæli. Í öðrum tungumálum er talað um fæðingardag, þá er ekki verið að mæla eitt og eitt ár af manni og minna á endalokin. Samkvæmt íslenskunni er sjötugur maður líka kominn á áttræðisaldur. Þetta angrar mig málfræðilega og heimspekilega en ekki persónulega. Ég er hress til líkama og sálar og þá skiptir árafjöldinn engu máli.“

Í Berlín, þar sem Arthúr Björgvin er búsettur, er 30 stiga hiti og glampandi sól, „smá sumarauki,“ kallar hann það og er ekki á heimleið. „Það er álíka erfitt fyrir Íslendinga að komast heim frá Þýskalandi og fyrir Ísleif Gissurarson biskup árið 1056, eins og fram kom í morgunútvarpinu,“ útskýrir hann.

Alltaf að skrifa? „Já, frá því ég byrjaði að yrkja lausavísur, fjórtán, fimmtán ára hef ég verið heillaður af orðum og skrifa nú jöfnum höndum á íslensku og þýsku. Er með tvær í smíðum á þýsku og búinn með fjórar, ein þeirra fjallar um bókmenntir Íslands og landslag. Denis Schack, sem stýrir bókmenntaþættinum Druckfrisch, tók viðtal við mig í heita læknum í Landmannalaugum. Ég var að mestu ber en hann í jakkafötum með slaufu. Á bókamessum kemur fólk upp að mér og spyr: „Ert þú ekki nakta skáldið í læknum?“

Hvernig á svo að halda upp á daginn? „Það stóð til að við Svala og börnin okkar tvö yrðum á Havaí hjá systur minni og fjölskyldu, en úr því varð ekki núna. Ætlum þess í stað á lítinn veitingastað sem jafnframt er bókasafn og tileinkaður austurríska rithöfundinum Joseph Roth. Þar munum við njóta góðs matar innan um allar bækurnar.“