Á þriðja þúsund nemendur voru brautskráðir úr Háskóla Íslands síðastliðna helgi. Þar á meðal var Ósvaldur Knudsen, sem lauk BS-námi í tölvunarfræði samhliða fullri vinnu. Brautskráning Ósvalds markar ákveðin tímamót því hún á sér stað einmitt tuttugu árum eftir að hann lauk BS-prófi í viðskiptafræði frá HÍ.

„Ég lærði viðskiptafræði á sínum tíma með áherslu á fjármál og fór nokkrum árum síðar í MBA-nám til Bandaríkjanna,“ segir Ósvaldur, sem hefur síðan þá verið með fingurna í fjármálageiranum, sprotafyrirtækjum og ferðaþjónustunni. „Á síðari árum komu upp tilvik þar sem mig langaði að geta kafað aðeins dýpra í greiningar.“

Gagnlegur grunnur

Ósvaldur lýsir því að árið 2019 hafi hann lesið grein þar sem talað var um að MBA-nemendur í Columbia-háskóla væru byrjaðir að taka kúrs sem var inngangur að forritun.

„Þetta vakti forvitni mína og ég tók þetta hundrað sinnum lengra en ég hafði ætlað mér fyrst. Ég skráði mig í tölvunarfræði og hoppaði bara í djúpu laugina. Planið var ekkert endilega að fara alla leið en svona einhvern veginn fannst mér þetta áhugavert og skemmtilegt og skref af skrefi hélt áfram þangað til ég ákvað að klára þetta.“

Í dag vinnur Ósvaldur í umhverfi þar sem hann er umkringdur verkfræðingum og tölvunarfræðingum.

„Þetta er rosalega góð þekking að hafa,“ segir hann. „Þótt maður sé ekki hokinn af praktískri reynslu þegar maður klárar BS í tölvunarfræði þá er þetta góður grunnur sem er gott að hafa í þessu umhverfi.“

Spennandi viðfangsefni

Ósvaldur var á sínum tíma meðal fremstu körfuboltamanna landsins og lék meðal annars með KR, auk þess sem hann þjálfaði kvennalið ÍS.

Ertu að ná að kíkja í einhvern öldungabolta í dag?

„Ég hef verið ótrúlega latur við að nota körfubolta sem líkamsrækt eftir að ég hætti að keppa í körfubolta,“ segir hann og hlær. „Í dag er það meira að ganga Esjuna eða eitthvað þvíumlíkt.“

Ósvaldur starfar í dag sem forstjóri sprotafyrirtækisins Laka Power sem vinnur að því að setja eftirlitsbúnað upp á háspennulínur til að fylgjast með ísingu og skógareldum.

„Sérstaða okkar í þessu er að stofnandinn, Óskar Valtýsson, fann upp á tækni til að aflfæða búnaðinn í þessum vélbúnaði með rafsegulspennu háspennulína, sem er sérstakt,“ útskýrir hann.

Í fótspor Bjarnfreðarsonar

Forvitnilegt er að vita hvort Ósvaldur sé búinn að ákveða hvaða háskólanám hann stefni á að klára eftir tuttugu ár.

„Georg Bjarnfreðarson var með fimm háskólagráður, en ég er kominn með þrjár,“ svarar hann hlæjandi. „Ég ætla ekki að ákveða mig alveg strax! En maður á samt aldrei að loka neinum dyrum.“