„Við veltum fyrir okkur hvernig listamenn hafa farið að því að skapa sér frelsi fyrir sköpunarþörf sína meðan þeir þoldu fangavist. Dagskráin okkar litast af því,“ segir Sigrún Harðardóttir fiðluleikari í kammerhópnum Cauda Collective sem efnir til tónleika í Norðurljósasal Hörpu klukkan 16 á sunnudaginn. Þeir bera yfirskriftina Að fanga frelsið.

Á dagskránni er meðal annars Kvartett um endalok tímans eftir Olivier Messiaen sem var saminn og frumfluttur í fangabúðum nasista i Görlitz árið 1941. Einnig kaflinn Attica, úr verkinu Coming Together eftir Frederic Rzewski, sem er byggt á uppreisninni í Attica-fangelsinu 1971. Hann er fluttur af kammerhópnum og Ingibjörg Friðriksdóttir syngur.

„Svo verður frumflutt nýtt verk eftir Ingibjörgu Friðriks sem byggir á bréfaskiptum bandarísks hermanns og konunnar hans í seinni heimsstyrjöld. Það heitir With All My Love, Art. Textann setti listakonan Kirsten Brehm­er saman og flytur hann á sviðinu meðan tónlistin er leikin. Bréfin fann hún á flóamarkaði, þau eru mjög falleg og rómantísk,“ lýsir Sigrún og heldur áfram. „Þó svo að efnisskráin kunni að virðast þung þá eru verkin það ekki, þau eru fjölbreytt, stundum létt og leikandi, stundum sorgleg en alltaf falleg og sönn. Þau spanna allt litróf tónlistarinnar.“

Tónleikar Cauda Collective hafa einkennst af einhvers konar samfélagsspeglun, að sögn Sigrúnar. „Okkur finnst gaman að para saman ný og gömul verk og finna sammannlegan þráð sem er svo skýr í tónlistarsögunni. Við leitum gjarnan út fyrir rammann og viljum að tónleikarnir veki forvitni hlustenda og skilji eitthvað eftir sig í hugum þeirra.“