N1 mun frá og með næstu áramótum hætta sölu á svo kallaðri marine diesel oil (MDO) til íslenska skipaflotans. Umrædd olíutegund hefur verið notuð á stærri skip sem kjósa að nota ekki svartolíu en sá galli hefur verið á gjöf Njarðar að hún hefur allt að 0,25% brennisteinsinnihald.

Í stað áðurnefndrar olíu mun N1 flytja inn og selja á skipaflotann olíu sem inniheldur aldrei meira en 0,1% brennistein, segir í tilkynningu. „N1 hefur undanfarin ár einbeitt sér af síauknum krafti að umhverfismálum og sem hluta af samfélagsábyrgð fyrirtækisins leitum við allra leiða til að verða grænni og betri fyrir umhverfið. Þannig kolefnisjöfnum við allt flug og notkun bíla.

N1 er með samning við Kolvið. Við settum okkur skýr markmið varðandi losun gróðurhúsalofttegunda, erum sífellt að minnka úrgang og við drögum verulega úr óflokkuðum úrgangi, svo dæmi séu tekin,“ segir Hinrik Örn Bjarnason, framkvæmdastjóri N1.

„Þetta er hins vegar verkefni sem lýkur aldrei en við leggjum okkar lóð á vogarskálarnar með því að reyna að minnka fótspor á þeim vörum sem við seljum. Breytingin á olíunni er dæmi um slíkt,“ segir Hinrik Örn.

Fram undan eru frekari breytingar hvað þetta varðar en í ársbyrjun 2020 tekur gildi ný reglugerð, IMO 2020, en í henni felst að verulega verði dregið úr brennisteinsinnihaldi svartolíu. Nú má hún mest vera 3,5% en frá og með 1. janúar 2020 má hún innihalda að hámarki 0,5% brennistein.