Mér finnst mikilvægt að gefa áhugafólki um íslenska myndlist tækifæri til að sjá mismunandi tegundir af henni í sama rýminu, hitta listamennina og gera díla við þá,“ segir Anna Eyjólfsdóttir, myndlistarmaður og formaður SÍM (Sambands íslenskra myndlistarmanna). Viðburður sem nefndur er Torg verður á lofti Korpúlfsstaða á laugardag og sunnudag. Þar munu milli 60 og 70 myndlistarmenn sýna list sína og gera bein viðskipti við þá sem óska.

„Við höfum aldrei haldið listamessur hér á Íslandi áður en mér hefur fundist þær vanta. Ég hef verið á nokkrum slíkum erlendis, eins og fleiri íslenskir listamenn, þannig að við byggjum á reynslu. Nú ákváðum við að hætta að tala um þetta sýningarform og byrja að framkvæma,“ segir Anna sem tók við formennsku í SÍM í vor. Hún segir stjórnina hafa kýlt á það að koma upp aðstöðu með góðu aðgengi. „Á Korpúlfsstöðum eru næg bílastæði og svona messa á að auðvelda fólki að eignast list. Myndlistamennirnir hafa eflaust visst verð í huga fyrir hvert verk og svo er samið. Kaffi og meðlæti verður líka á boðstólum.“

Anna segir um margs konar myndlist að ræða, grafík, málverk, höggmyndir, textíl, leirlist. SÍM eru regnhlífarsamtök, allir sem tilheyra þeim geta tekið þátt. En komust allir að sem vildu?

„Nei, við vorum með tímamörk og eftirspurn eftir básum reyndist meiri en framboð. Ég byrjaði á að panta fimmtíu þil en þau eru komin upp í tvö hundruð og eitthvað. Þetta er því miklu stærra en við bjuggumst við og sýnir þörfina hjá listamönnum á að koma verkunum sínum á framfæri.“

Á Korpúlfsstöðum eru rúmlega 40 vinnustofur listamanna á neðri hæðinni, þar sem eitt sinn var fjós og fleira. „Það hefur verið efst á óskalistanum hjá mér lengi að gera hlöðuloftið að opinberu sýningarrými,“ segir Anna. „Listamessan er í rauninni fyrsta skrefið í þá átt, svo þetta er stór helgi í lífi okkar myndlistarmanna.“