Mínar rætur liggja í Hrunamannahreppi og sýningin Rætur fjallar um æskuslóðir mínar, umhverfið þar, landslagið og fjölskyldu mína,“ segir Sonja Margrét Ólafsdóttir, sem er lærður ljósmyndari og útskrifuð úr HÍ með BA-gráðu í listfræði. Hún er stödd í Skotinu í Ljósmyndasafni Reykjavíkur, sem er fyrir ofan Borgarbókasafnið við Tryggvagötu, á 6. hæð. Þar er hún, ásamt Írisi Gyðu Guðbjargardóttur sýningarstjóra, að undirbúa uppsetningu Róta, sem verður opnuð í dag klukkan 16. Þær eru búnar að stilla ljósmyndum upp við veggina og eiga bara eftir að festa þær ofar.

Sonja Margrét kveðst hafa útskrifast úr Ljósmyndaskólanum á Granda í janúar síðastliðnum. „Þetta er fyrsta sýning mín frá því ég útskrifaðist en ég sýndi í Ram Skram fyrir jól og svo var ég á samsýningu úti í Finnlandi með ungum norrænum ljósmyndurum síðasta sumar,“ upplýsir hún.

Myndirnar í kringum hana núna eru allar frá Flúðum. „Ég er af fjórðu kynslóð kvenna sem eru aldar upp á Flúðum,“ útskýrir Sonja Margrét og heldur áfram. „Langamma fluttist þangað og hún og afi byggðu sér sveitabæ. Það eru fjórar kynslóðir á myndunum, það eru amma, mamma, systir mín og stelpurnar hennar. Við eigum allar sameiginlegt að hafa stigið okkar fyrstu skref í sama landslaginu. Þær eiga heima þar ennþá en ég flutti í bæinn 16 ára en fer samt heim eins oft og ég get og hef sterk tengsl við staðinn.“