Þetta verður mjög skemmtileg hátíð. Hún Kristín Lárusdóttir sellóleikari er að sjá um hana. Hún á rætur á Ströndum og kemur fram með Svavari Knúti og strengjahetjunum,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir á Kirkjubóli við Steingrímsfjörð um hátíðina Vetrarsól á Ströndum sem hófst í gærkvöldi með pöbbarölti og stendur nú um helgina.

Dagrún Ósk er ein þeirra sem ætla að koma fram í Sauðfjársetrinu í Sævangi í kvöld í dagskránni Bábiljur og bögur í baðstofunni. Þar á að verða notaleg samverustund fyrir alla fjölskylduna, vöfflur og kaffi á borðum og öllum velkomið að hafa handavinnu með. Dagrún bendir á að slíkt hafi tíðkast í baðstofum fyrri tíða. „Stundin verður í þeim anda, þetta verður skemmtiviðburður, stemmur af Ströndum, samsöngur og krakkar að kveða, Ása Ketils fer með þulur og Jóhanna Ósk og Bragi Vals syngja fimmundarsöngva. Margir taka með sér prjóna á svona viðburði,“ lýsir hún. En hvað ætlar hún sjálf að flytja?

„Ég ætla að segja sögur, það verða þjóðsögur því þær eru svo skemmtilegar, nokkrar tröllasögur og huldufólkssögur sem tengjast svæðinu. Hún er náttúrlega fræg sagan af tröllunum sem ætluðu að moka Vestfjarðakjálkann frá afganginum af Íslandi, þegar kristnin var að breiðast út um landið og kirkjur risu víða, leist þeim ekkert á. Svo þau ætluðu að útbúa tröllaparadís á Vestfjörðum en fólkið mátti vera á restinni af landinu með sínar kirkjur. Þessa sjást enn merki. Tröllin voru þrjú og byrjuðu að moka beggja vegna frá, tvö voru saman í Gilsfirðinum og köstuðu af rekunum aftur fyrir sig, þaðan koma allar litlu eyjarnar á Breiðafirðinum. Þau voru svo upptekin af vinnunni að þau áttuðu sig ekki á hvað tímanum leið og urðu að steinum. Því er hægt að skoða þau núna sem klettadranga. Þriðja tröllið var í Steingrímsfirðinum að grafa, það uggði ekki að sér heldur, sólin kom upp og það varð að steini sem flaut út á fjörð og staðnæmdist utan við Drangsnes, þar er Grímsey.“