Þegar Trausti Valsson skipulagsfræðingur er inntur eftir líðan sinni kveðst hann hafa það ansi hreint gott. „Ég er ótrúlega heppinn með heilsuna. Það var tekinn úr mér botnlanginn tólf eða þrettán ára gömlum og hefur síðan varla orðið misdægurt. Reyndar datt ég og braut fjögur rif fyrir tæpum fimm árum þegar ég var að klifra upp á vinnuborð í geymslunni til að þurrka af efstu hillunum. Þá var ég hátt í þrjár vikur á spítala því það kom smá gat á lunga líka.“

Gerir sitt efni aðgengilegt

Trausti varð 75 ára í gær. Hann hefur gefið út fjórtán bækur um ævina. Sú síðasta, Mótun framtíðar, var starfsævisaga sem kom út um það leyti sem hann lét af störfum fyrir fimm árum. Hann kveðst síðan hafa unnið í að gera allt sitt efni aðgengilegt í tölvum og hljóðbókum.

„Ég fékk tölvunarfræðing til að búa til heimasíðu. Hún finnst með því að gúggla nafnið mitt, þá birtist krækja efst. Ég byrjaði á setja bækurnar á PDF-skjöl, nú er hægt að hlaða niður hverri fyrir sig á fimm sekúndum til að lesa. Svo safnaði ég saman umsögnum, viðtölum og bókagagnrýni og síðasta ári hef ég varið í að búa til hljóðbækur af öllu saman. Það eru vissir kostir við að vera kominn á eftirlaun.“

Sjálfur kveðst hann hafa lesið bækurnar fyrir Hljóðbókasafnið og sent Storytel prufur. „Þú ert ekki alveg nógu góður lesari en okkur líst vel á bækurnar. Nefndu bara einhvern leikara sem þú vilt að lesi,“ var svarið sem ég fékk. Ég nefndi Jóhann Sigurðarson, hann las tvær bækur og Pétur Eggerz þá þriðju. Nú eru þær inni á Storytel. En veigaminni bækur hef ég lesið sjálfur. Svo hef ég skrifað fjórar bækur á ensku og samdi við góðan mann, Julian Meldon D'Arcy, prófessor í enskum bókmenntum við HÍ, um lestur þeirra. Þessar bækur eru uppseldar en þarna fær fólk aðgengi að þeim ókeypis. Unga fólkið vill læra meðan það er að vaska upp og keyra bílinn og með hljóðbókum skapast möguleiki á því. Svona mæti ég þörfum nútímans og er ánægður með það.“

Langar að lifa í sátt

Trausti var prófessor í skipulagsfræði við Umhverfis- og byggingaverkfræðideild. Spurður hvort hann telji fyrrverandi nemendur hafa fylgt stefnu hans í störfum svarar hann. „Þetta fólk er virkt og vonandi hef ég eitthvað kveikt í því. Nemendur mínir voru í verkfræði og fleiri deildum, sumir hafa farið í skipulag síðar, það finnst mér ánægjulegt. Ég er ekki að segja að ég sé sáttur við allt sem gert er. Það hafa geisað um mig stormar í hálfa öld því ég hef verið gagnrýninn. En núna er ég ekki tilbúinn í slíkt, heldur langar að lifa í sátt og samlyndi við fólk.“