Ég myndi segja að Mosi frændi væri svona týpískt MH-fyrirbæri,“ segir Ármann Halldórsson, trommuleikari rokkhljómsveitarinnar Mosa frænda sem gefur út plötuna Aðalfundurinn í dag, og er hún aðgengileg á Spotify og öðrum streymisveitum.

Hljómsveitin var stofnið fyrir 35 árum þegar meðlimir hennar voru allir nemendur við Menntaskólann við Hamrahlíð. „Við vorum bara hópur af strákum sem voru að gaukast í því að gera tónlist í MH, spiluðum á tónleikum og vorum í alls konar tilraunastarfsemi,“ segir Ármann.

Meðlimir hljómsveitarinnar eru sex, þeir Aðalbjörn Þórólfsson, Björn Gunnlaugsson, Gunnar Hansson, Magnús J. Guðmundsson og Sigurður H. Pálsson, ásamt Ármanni. Vinirnir hafa haldið tengslum frá stofnun Mosa frænda og eru góðir vinir.

„Svo er það skemmtilega sagan af Kötlu köldu, sem fór í sturtu en ekki í sund,“ segir Ármann brosandi en sumarið 1988 naut lag hljómsveitarinnar Katla kalda talsverðra vinsælda hér á landi. „Textinn var saminn í beinni útsendingu hjá Þorsteini J. og hann auglýsti svo eftir lagi við textann,“ bætir Ármann við.

„Bjössi gítarleikari hringdi inn og samdi svo lagið sem varð að þessum smelli,“ segir hann.

Eftir útskrift úr MH tók Mosi frændi sér frí í dágóðan tíma, eða til ársins 2009. „Eftir menntaskólann fórum við hver í sína áttina, í háskóla og út og suður. Svo líður og bíður þar til við ákveðum að halda upp á fertugsafmælin okkar með endurkomutónleikum.“

Ellefu ár eru liðin frá endurkomutónleikunum og fertugsafmælunum en Mosi frændi er enn í fullu fjöri. „Við ætluðum í rauninni ekkert að gera neitt meira en það var bara svo gaman að síðan þá höfum við verið að spila. Hápunkturinn er svo platan Óbreytt ástand, sem við gáfum út árið 2016 og svo núna Aðalfundurinn,“ segir Ármann.

Aðspurður að því hvernig tónlist hljómsveitin spili segir Ármann hana afar fjölbreytta. „Curver Thoroddsen vann að Óbreyttu ástandi með okkur og hann myndi segja að þetta væri skrítin tónlist,“ segir Ármann og hlær.

„En ég myndi nú segja að þetta væri rokk sem við spilum, svo er þarna pönk og sum lögin eru aðeins rólegri, jafnvel djössuð,“ segir Ármann.

„Svo er það svolítið okkar sérstaða að við erum svolítið að skiptast á. Til dæmis Siggi, sem er söngvari, spilar líka á gítar og Bjössi, sem er gítarleikari, fer stundum á trommurnar og ég syng. Þetta gerir tónleika hjá okkur mjög líflega,“ segir Ármann.

Enginn af meðlimum Mosa frænda er í fullu starfi sem tónlistarmaður og segir Ármann að tónlistin sé áhugamál þeirra. „Við höfum fyrst og fremst bara verið að spila í Mosanum nema kannski Bjössi, hann hefur verið í öðrum böndum. Mosi er okkar aðkoma að tónlist,“ segir Ármann.

Þegar Ármann byrjaði í Mosa frænda á öðru starfsári sveitarinnar, 1987, hafði hann aldrei spilað tónlist áður. „Ég var ekki með í stofnun Mosa en það var alltaf vesen með trommuleikara. Það höfðu einhverjir verið að tromma með þeim en voru ekki beint í hljómsveitinni og ég var alltaf að dandalast með þeim,“ segir Ármann.

„Einn daginn var bara sagt: Jæja, Ármann, vilt þú ekki bara tromma? Ég sagði bara já en kunni ekkert að tromma svo smám saman pikkaði ég það bara upp,“ bætir hann við.

„Svo er þetta bara svo ótrúlega gaman og það er ástæðan fyrir því að við erum að þessu. Sumir fara í golf en við förum bara í rokk,“ segir Ármann að lokum.