Fólk lítur orðið á það sem sjálf­sagðan hlut að Þórs­mörkin sé vel gróin en þannig hefur það ekki alltaf verið og þar er mikil saga á bak við,“ segir Hreinn Óskars­son, sviðs­stjóri þjóð­skóga á Suður­landi. Hann er manna fróðastur um þróun Þórs­merkur síðustu hundrað ár eða frá því sam­komu­lag varð um að friða hana.

Hreinn segir mikla fram­sýni hafa falist í því hjá bændum að af­sala sér beiti­rétti í Þórs­mörk og al­ger­lega sér­stakt á þeim tíma því hagar höfðu orðið illa úti í Kötlu­gosinu 1918. „Það var vissu­lega háð bar­átta fyrir verndun svæðisins fyrir beit, svo hægt væri að bjarga þeim birki­skógum sem þar var enn að finna og mikil á­kveðni var í fólki sem barðist fyrir því og ein­stakir bændur náðu ekki að skemma þá sam­stöðu,“ lýsir hann og nefnir nokkra fram­línu­menn í friðuninni.

„Fyrsti skóg­ræktar­stjóri Ís­lands, hinn danski Agner Kofoed Han­sen, hóf störf 1908. Á sjálf­stæðis­bar­áttu­tíma þjóðarinnar var ekkert auð­velt fyrir hann að vera Dani í þessari stöðu en hann vann þrek­virki, því hann náði að friða svo marga gamla birki­skóga á landinu. Hann vildi banna beit í Þórs­mörk en bænda­stéttin var sterk og kirkjurnar áttu beitar­rétt bæði í hálfri Þórs­mörk og í Goða­landinu.

Hreinn Óskarsson þekkir Mörkina vel
Mynd/Aðsend

Annar friðunar­sinni var Einar Sæ­mund­sen, fyrsti skógar­vörður á Suður­landi sem byrjaði 1910. En aðal­hetjan í bænda­hópnum var Árni Einars­son í Múla­koti, hann gekk á milli fólks og sann­færði það um að friðunin væri góð hug­mynd og safnaði undir­skriftum.“

Lang­afi Hreins var einn af bændunum sem skrifuðu undir samninginn og synir hans voru meðal þeirra sem unnu við að girða Mörkina. Hreinn segir það hafa verið gríðar­lega erfitt verk og tekið nokkur ár. „Allt efni var borið á hestum og á bakinu langt inn á fjöll. Fyrstu staurarnir voru gerðir úr upp­gjafa járn­brautar­teinum úr Öskju­hlíðinni, fyrsta flokks endur­vinnsla þar, en þungir hafa þeir verið.“

Heildar­svæðið sem friðað var á sínum tíma var hátt í 50 fer­kíló­metrar, með hæstu fjöllum, að sögn Hreins. „Komnir eru birki­skógar í um 15 fer­kíló­metra og kjarr og stakar birki­plöntur eru víðar. Skógarnir ná frá um 200 metra hæð yfir sjó upp í rúm­lega 500. Hæsta tréð sem vitað er um er í um 660 metra hæð. Til við­miðunar er Steinninn í Esjunni í 597 metrum,“ lýsir hann.

Starf Skóg­ræktarinnar í Þórs­mörk nú segir Hreinn felast í göngu- og hjóla­stíga­gerð. Skógurinn sjái um sig sjálfur. „Maður að nafni Charles Goeman’s hefur fengið sjálf boða­liða alls staðar að úr heiminum til að sinna göngu­stígunum, það er fólk sem notar sumar­leyfin sín í svona verk­efni víða og þau hafa lagt feiki­lega vinnu í stígana í Þórs­mörk. Þurfa jafn­vel að ganga í klukku­tíma með efni upp í fjöllin áður en þau byrja að vinna.“

Hreinn segir Skóg­ræktina í sam­vinnu við hjóla­hópa og hafa fundið nýjar leiðir handa þeim, sumar þeirra af lagðar göngu­leiðir. „Inni á mörkinni er góður 25 kíló­metra hringur sem hægt er að hjóla,“ lýsir hann og segir nóg pláss fyrir alla. „Í rauninni ber ekkert land meiri fjölda en skógi vaxið land með góðum göngu­leiðum. Þá hverfur fjöldinn inn í skóginn. Um­hverfið í Þórs­mörk er ein­stakt og gróðurinn og kletta­myndanirnar spila vel saman.“

En sér Hreinn ekkert eftir lands­laginu sem hverfur bak við skóginn? „Nei, ég lít á skóginn sem hluta af lands­laginu og þó ein­staka steinar og klettar hverfi með tímanum þá halda lands­lags­drættirnir sér víðast hvar.“

Í lokin er hann spurður hvort í bí­gerð sé að halda upp á hundrað ára friðunar­af­mælið. „Það stóð til að halda smá há­tíð en það gengur ekki upp í sam­komu­banni. Ég ætla inn úr og kannski koma ein­hverjir frá Ferða­fé­laginu. Það verður bara farið út í skóg með kaffi­brúsana.“

Örn Hreinsson fjallagarpur við hæstu birkiplöntu landsins í Útigönguhöfða sem nú vex hæst birkitrjáa yfir sjó á Íslandi svo vitað sé.
Mynd/Aðsend