Hann er átján ára gamall og lauk öðru ári í MR síðasta vor. Viktor Logi Þórisson er yngstur í landsliði Íslands í líffræði, sem mun þreyta ólympíukeppni í ágúst. Hún fer fram á netinu en ekki í Japan, eins og fyrirhugað var áður en heimsfaraldurinn reið yfir. Yfir 70 þjóðir taka þátt.

„Fyrst var lagt próf fyrir alla framhaldsskólanema í landinu, síðan var úrslitakeppni og fjórir úr henni komust áfram. Ég varð reyndar í fimmta sæti en einn þeirra sem var á topp fjögur listanum komst líka í stærðfræðiliðið og valdi það. Þá komst ég inn,“ lýsir Viktor og heldur áfram. „Úrslitakeppnin var haldin síðasta skóladag fyrir COVID-hlé og stuttu seinna var ferðinni til Japans aflýst, þar sem ólympíukeppnin hafði verið fyrirhuguð í Nagasaki 4. júlí.“ Hann segir þá niðurstöðu ekki hafa komið á óvart, en viðurkennir að vonbrigðin hafi verið mikil.

Landsliðið í líffræði ásamt leiðbeinendum. Viktor Logi, Þórhallur Halldórsson, Kjartan Kristjánsson, Ólafur Patrick Ólafsson, María Guðjónsdóttir, Katla Rut Kluvers, Arnór Bjarki Svarfdal og Sigríður Rut Franzdóttir. Mynd/Kristinn Ingvarsson

Viktor var líka í hópi í MR sem ætlaði til Suður-Afríku í tveggja vikna ferð. „Við ætluðum að vera í Kruger þjóðgarðinum í viku og svo að snorkla. En þeirri ferð er frestað fram á næsta ár. Það kom fljótt í ljós að ólympíukeppnin yrði á netinu 11. og 12. ágúst. Ég held að við verðum öll spurð út úr sömu bók, hún er dálítill doðrantur.

Viktor kveðst vera grúskari og hafa haft áhuga á líffræði síðan í grunnskóla. „Það er örugglega náttúrufræðikennaranum mínum í Lindaskóla að kenna, eða þakka.“ Hann kveðst oftast vera í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, við undirbúning keppninnar, nú og stundum séu tímar með leiðbeinendum. „Liðinu finnst þægilegra að læra saman og geta spjallað um efnið, en þetta er samt einstaklingskeppni.“

Viktor er jákvæður og kveðst hlakka til að takast á við keppnina. „Ég er ári yngri en hinir og get farið aftur á næsta ári, þannig að ég horfi á þetta skipti sem undirbúning. Leikarnir verða í Portúgal næst. Ef við hefðum verið í Nagasaki núna 4. júlí hefðum við lent í rosalegum flóðum. Það var gott að sleppa við þau.“