Mörg áhugamál mín tengjast tónlist og bókmenntum og ég hef haft ánægju af sálmum,“ segir Una Margrét Jónsdóttir dagskrárgerðarkona, sem nýlega tók við heiðursviðurkenningu fyrir framlag til kirkjutónlistar á Íslandi, með sálmaþáttum sínum.

Ung kveðst hún hafa kynnst sálmum. „Amma mín, Sólveig Kristjánsdóttir, fór oft með mig í Akureyrarkirkju sem barn. Löngu seinna sagðist kona hafa vorkennt mér að sitja undir heilum messum – en mér fannst aldrei leiðinlegt. Ég hafði gaman af sálmunum, sum guðspjöllin skildi ég og ef mér leiddist ræðan hugsaði ég bara um eitthvað annað, eða skoðaði myndirnar í gluggunum. Ég man eftir fyrsta skiptinu sem ég áttaði mig á að sálmarnir tengdust guðspjöllunum. Það var þegar presturinn hafði lesið um faríseann og tollheimtumanninn og svo var sunginn sálmurinn Í guðshús forðum gengu tveir. Ég var sjö, átta ára og hugsaði: Þetta er merkilegt, sálmurinn er einmitt um það sem presturinn var að segja!“

Sumt í textunum var torskildara en annað fyrir litla stúlku. „Eitt af því sem ég skildi var „nú árið er liðið“ og „aldrei það kemur til baka“ – en í fyrsta erindinu af Heims um ból skildi ég ekkert nema „helg eru jól“. Taldi að lokasetningin væri um einhvern Meinvill sem ætti bágt og lægi í myrkrinu og var því mjög fegin þegar í öðru erindinu kom setning um himneskt ljós.“

Una Margrét kveðst fara alltof sjaldan í messur núorðið þó hún hafi gaman af því. „Eftir fertugt fór ég að sofa til hádegis um helgar og hlakka til þess alla vikuna. Nema hvað ég reyni að komast í kirkju á Akureyri einu sinni á ári klukkan 11. Heldurðu ég hafi ekki hitt á einhverja Tesemessu eitt árið með trúarsöngvum frá Frakklandi og lögin voru svo leiðinleg að þau ætluðu mig lifandi að drepa. Hreinn, maðurinn minn, fann hvernig ég þrútnaði út af vonsku við hliðina á honum, búin að rífa mig upp eldsnemma fyrir þetta! En svo var mér bætt þetta upp næsta ár, þá var kvöldmessa og þar var meira að segja sunginn sálmurinn Í guðshús forðum gengu tveir.“

[email protected]