„Þetta altari er gert til að minnast elstu kirkju á Íslandi sem nefnd er í rituðum heimildum, Landnámu og Kjalnesingasögu. Þar segir: Kirkja Örlygs er hér komin um árið 900 – og er þar átt við Örlyg Hrappsson sem kom frá Suðureyjum Skotlands. Hann helgaði kirkjuna írska dýrlingnum Kólumkilla. Þannig að þetta er tenging okkar við keltneska menningu,“ segir Hrefna Sigríður Bjartmarsdóttir, formaður Sögufélagsins Steina, sem hefur haft umsjón með framkvæmd altaris að Esjubergi.

Frú Agnes Sigurðardóttir, biskup Íslands, mun vígja altarið á morgun, sunnudag, klukkan 14. Í lögun er það eins og keltneskur sólkross og í miðju þess er altarissteinn úr landi Esjubergs. Hrefna segir sr. Gunnþór Ingason hafa átt hugmyndina að sólkrossinum og aðra í stjórn Steina eiga sameiginlegan þátt í útlitinu. Einnig notið aðstoðar Sigurborgar Óskar Haraldsdóttur landslagsarkitekts.

Hrefna rekur hugmyndina að altarinu til héraðsfundar Kjalarnessprófastsdæmis árið 1983.

„Þegar Sögufélagið Steini var stofnað fyrir ellefu árum var ákveðið að ráðast í framkvæmdina, því hugmyndinni hafði verið haldið vakandi. Vorið 2016 tók svo biskup Íslands fyrstu skóflustungu, ásamt fleirum, og við höfum verið að vinna við þetta í fimm ár. Eiginlega var verkið klárað fyrir jól, svo höfum við verið að snurfusa í vor en eigum eftir að gera fræðsluskilti, erum að vinna í þeim,“ lýsir Hrefna.

Hún getur þess að við bygginguna hafi áhersla verið lögð á að efni og vinnukraftur kæmu sem mest af Kjalarnesi og meðal annars hafi börn úr skólunum safnað fjörusteinum sem prýði krossinn.

„Við í stjórn Steina höfum unnið mikla sjálfboðavinnu, ásamt fleira fólki innan og utan Kjalarness. Við fengum tvo hleðslumeistara, þau Ara Jóhannesson og Kristínu Auði Keldal, og Guðni Ársæll Indriðason, sem er fæddur og uppalinn Kjalnesingur, smíðaði mót krossins og steypti hann.“

Messað hefur verið á þessum stað árlega síðan 2010, að sögn Hrefnu. Einnig haldið þar upp á bæði mannréttindadag- og barnamenningarhátíð.

„Hingað eru allir velkomnir,“ segir hún. „Hér er góður áningarstaður fyrir göngufólk, óháð trúarskoðun.“