Ég var nú bara að taka við í síðustu viku og er aðallega að kynna mér málin,“ segir hinn nýi þjóðskjalavörður Hrefna Róbertsdóttir. „En ég er ekki alveg ókunnug því að ég er búin að vera sviðsstjóri hér innan húss. Það er samt mikil starfsemi og stefnumótun sem ég þarf að skoða. Ég vil styrkja og efla þessa stofnun eins og mér frekast er unnt.“

Hrefna segir Þjóðskjalasafnið ótvírætt eina af mikilvægustu grunnstofnunum ríkisins. „Hér er minni Íslands og sögunnar,“ segir hún og bendir á að safnið geymi stærsta safn frumheimilda um sögu og þróun byggðar og mannlífs í landinu. Því sé það sá grunnur sem rannsóknir, stjórnsýsla og mannréttindi á Íslandi byggi á. „Hér eru skjöl um réttindamál borgaranna, það eru einkunnir, barnaverndarmál, eignarréttindi og alls konar mál sem eru geymd hér með tryggum hætti. Þriðji armurinn er svo í raun leiðbeiningar og eftirlit með skjalahaldi opinberra aðila og þar erum við að takast á við nýja hluti eins og rafræn skil. Við erum með gögn frá miðöldum á skinnskjölum, svo sem Reykholtsmáldaga, allt til nútíma gagnagrunna yfir virðisaukaskatt.“

Ljóst er að starfsemi Þjóðskjalasafns er umfangsmikil. En taka ekki gögnin samt æ minna pláss eftir að tölvurnar komu til sögunnar?

„Jú, í framtíðinni verður það þannig. En það er svolítið í land með það því það er mikið af pappírsgögnum enn úti í stofnunum, sem ekki hefur enn verið gengið frá. Við verðum að taka við pappírsskjölum einhver ár í viðbót.“

Spurð hvort hún þurfi að sækja þau, eða reka á eftir að þeim sé skilað inn, svarar Hrefna: „Við sem störfum hér berum í raun ábyrgð á að allir opinberir aðilar skili hingað gögnum sínum. Hér eru skjalaverðir sem veita fólki ráðgjöf og gera áætlanir með því um skil.“

Hrefna segir hafa gengið vel að vinna með öllum ráðuneytunum, þau skili gögnum samkvæmt ákveðnum áætlunum, aðrar stofnanir séu kannski komnar styttra. „En eftir hrun var tekið vel á skjalahaldi opinberra aðila og það er búið að setja reglur sem auðvelda þeim frágang.“