Kordo kvartettinn, ásamt Olivier Manoury bandoneonleikara, flytur mörg af þekktustu verkum argentínska tangósnillingsins Astors Piazzolla (1921-1992) í Salnum í kvöld svo sem Adios Noninp, Escualo og Four for tango. Fleira verður á dagskránni.

Hinn franski Olivier Manoury segir Piazzolla hafa útvíkkað argentínska tangóinn eftir að hafa kynnst nýjum tónlistarstefnum hjá góðum kennara í New York, er hann bjó þar um tíma með fjölskyldu sinni sem unglingur. „Þegar Piazzolla kom aftur til Argentínu fór hann að spila í hljómsveit og vildi fá fólk til að hlusta á tónlist, ekki bara dansa,“ lýsir Olivier. „Þá fór hann að semja tangó fyrir fleiri strengi en gítar og lög í fleiri köflum en tíðkaðist í tangóinum. Þannig setti hann svip sinn á hann.“

Tónleikarnir í Salnum hefjast klukkan 19.30. Þeir tilheyra Tíbrár tónleikaröðinni.