Ég er mjög glöð og tilbúin að takast á við þetta starf,“ segir Ása Richardsdóttir, stödd í München í Þýskalandi, á stórum fundi sviðslistasamtakanna IETM þar sem tilkynnt var um ráðningu hennar sem framkvæmdastjóra þeirra frá 1. febrúar næstkomandi. Hún segir að rúmlega 50 manns hafa sótt um embættið. „Fyrst voru valdir átta og svo fjórir, þannig að ég er búin að fara í tvö viðtöl og veit að rætt var við margt fólk sem hefur haft af mér kynni. Þetta hefur verið tveggja mánaða ferli,“ segir hún.

Samtökin IETM eru með aðsetur í Brussel svo þar kemur Ása til með að búa næstu árin, eftir að hún tekur við stöðunni. Þau eru ein þau stærstu sinnar tegundar í heiminum. Voru stofnuð árið 1981 og eru með yfir 500 leik- og danshús, hátíðir, hópa, stofnanir og samtök innanborðs, auk listráða og menningarráðuneyta margra landa.

Ása er fædd og uppalin í Kópavogi. Þar hefur hún líka búið og blandað sér í bæjarpólitíkina á seinni árum en fyrstu afskipti hennar af sviðslistum var stofnun Kaffileikhússins árið 1994 sem hafði aðsetur í Hlaðvarpanum, neðst við Vesturgötuna í Reykjavík. Síðar var hún framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins í átta ár og forseti Leiklistarsambands Íslands í fjögur. Nú er hún formaður stjórnar Tjarnarbíós og síðustu átta ár hefur hún unnið sjálfstætt í ýmsum norrænum, evrópskum og alþjóðlegum verkefnum. „Ég hef verið félagi í IETM fyrir hönd mismunandi stofnana, hópa og leikhúsa í sextán ár. Samtökin hafa verið mín faglega fjölskylda,“ segir hún.

Ása segir Ísland hafa gengið í IETM með því að skipuleggja stóran fund á vegum samtakanna í október árið 2002. „Sjálfstæðu leikhúsin stóðu að fundinum, þá voru átta slík á höfuðborgarsvæðinu. Við brydduðum upp á ýmsum nýjungum, buðum til dæmis upp á ferðalag daginn áður en fundurinn hófst. Fólk fékk meðal annars að fara í sund í Hveragerði, hlýða á sólótónleika Tatu Kantoma harmónikuleikara við 200 kertaljós inni í helli og gista í kojum í skíðaskála undir dansandi norðurljósum. Þannig stimpluðum við Íslendingar okkur inn og forferðir hafa verið fastur liður fyrir stóra fundi samtakanna síðan.“

Ása segir næsta stóra fund IETM verða í Hull í lok mars, helgina sem Bretar ganga úr Evrópusambandinu. „Við ætlum að vera Bretunum, vinum okkar, til halds og trausts,“ segir Ása. Þeir hafa á síðustu vikum orðið fjölmennasta þjóðin innan samtakanna. Það er ákveðin sögn í því að ganga í samtökin og efla sitt evrópska og alþjóðlega samstarf.“

Áður en Ása tekur við nýja embættinu ætlar hún að stýra norræna danstvíæringnum Ísheit Reykjavík sem fer fram víða á höfuðborgarsvæðinu 12. til 16. desember. Svo eru flutningar handan við hornið. „Ég er algerlega tilbúin að flytja út, þó mér þyki ákaflega vænt um Ísland,“ segir hún og upplýsir að eiginmaðurinn, Hjálmar H. Ragnarsson, muni örugglega verða með annan fótinn á Íslandi og hinn í Brussel. „Krakkarnir okkar eru uppkomnir, þeir koma og fara eftir því sem þeim sýnist.“