Þetta er mikill heiður,“ segir tónlistarmaðurinn Árni Páll Árnason, betur þekktur sem Herra Hnetusmjör, eftir að hafa hlotið nafnbótina bæjarlistamaður Kópavogs 2020. Það gerðist við hátíðlega athöfn í Vatnsendaskóla í gær, á 65 ára afmæli Kópavogsbæjar, að viðstöddum unglingum í 10. bekk skólans.

„Mér finnst geggjað að fá þessa viðurkenningu eftir að hafa verið svona áberandi Kópavogsbúi undanfarin ár,“ segir Herra Hnetusmjör og vísar þar til þess að í textum hans er bærinn hans yfirleitt í forgrunni. Hann átti þó fyrstu ár sín í allt öðru sveitarfélagi. „Ég fæddist í Hveragerði og ólst upp þar til tíu ára aldurs en mótunarárin voru í Kópavogi. Hér byrjaði ég í 6. bekk grunnskóla og fór fljótlega að rappa í Vatnsendaskóla, með vinum mínum – bara eitthvað að bulla – og svo núna, allmörgum árum seinna, er ég í Vatnsendaskóla að taka við þessari viðurkenningu. Mér finnst þetta skemmtilegur hringur.“

Í þakklætisávarpi sínu gat Herra Hnetusmjör þess að hann hefði í hyggju að skjóta tónlistarmyndband á stöðum sem hafi mótað hann. „Mig langar líka að koma sem flestum Kópavogsbúum í myndbandið,“ sagði hann.

Herra Hnetusmjör hefur aldrei leynt stolti sínu af því að vera Kópavogsbúi.
Fréttablaðið/Ernir

Herra Hnetusmjör er liðsmaður og einn stofnenda fjöllistahópsins og útgáfunnar KBE. Skammstöfunin stendur fyrir Kóp Bois Entertainment sem gefið hefur út fjórar plötur og fjölmörg lög. Hann hefur unnið til fjölda verðlauna, átt plötu ársins og verið valinn flytjandi ársins á Hlustendaverðlaununum bæði árin 2019 og 2020. Þannig að hann hefur skapað sér sess sem tónlistarmaður undanfarin ár og vinsældirnar náð langt út fyrir bæjarmörk Kópavogs. Hann stýrði sjónvarpsþáttaröðinni Kling kling í Sjónvarpi Símans á síðasta ári og rekur skemmtistaðinn 203 í miðbæ Reykjavíkur. Með nafninu minnir hann samt á bæinn sinn, enda vísar það til póstnúmersins í austurhluta Kópavogs.

Spurður hvort hann haldi að hann sé fyrsti íslenski rapparinn sem hlýtur þann heiður að vera valinn bæjarlistamaður, svarar Herra Hnetusmjör: „Ég held að minnsta kosti að ég sé sá fyrsti í Kópavogi. Sem kemur mér á óvart því Erpur Eyvindarson býr hér líka. Hann hefur verið mín fyrirmynd og hann tók mig dálítið undir vænginn þegar ég var að byrja. Við Erpur erum búnir að bralla mikið saman. Hann var alltaf að semja um vesturhluta bæjarins, Kársnesið og Hamraborgina, svo kom ég, sautján ára gamall, og fór að rappa um Vatnsendann og Kórana, sem sagt póstnúmer 203. Við Erpur erum gott lið og dekkum allan bæinn!“

Eins og flestir aðrir heimsbúar hefur Herra Hnetusmjör verið í samkomu­banni síðustu vikur og ekkert getað komið fram sem listamaður. Hann hefur þó alls ekki látið sér leiðast enda nýbakaður faðir og kveðst hafa getað haft það kósí með syninum Björgvini Úlfi Árnasyni Castañeda sem sé þriggja mánaða núna. „Svo er ég líka farinn að fara aftur í stúdíóið að semja og taka eitthvað upp og fram undan er bara að gera meiri tónlist og fara á milljón um leið og þríeykið segir að það megi.“