Í dag, 28. júní, eru 50 ár frá svokölluðum Stonewall-mótmælum gegn lögregluofbeldi í New York-borg. Þau mörkuðu upphaf réttindabaráttu hinsegin fólks á Vesturlöndum eins og við þekkjum hana í dag.

Þrátt fyrir að dagurinn marki mikilvæg söguleg skil, hafði verið andóf gegn lögreglu borgarinnar í mörg ár áður. Fjölmörg félagasamtök höfðu einnig verið stofnuð af samkynhneigðu fólki í Bandaríkjunum og í Evrópu til að stuðla að jafnrétti á grundvelli kynhneigðar.

Stonewall-mótmælin draga nafn sitt af hinsegin barnum Stonewall Inn við Christopher-götu í New York-borg. Afskipti lögreglunnar af barnum og áreitni hafði varað lengi en þegar lögreglumenn réðust inn á barinn morguninn 28. júní árið 1969 þótti gestum komið nóg. Þeir risu upp og grýttu lögregluna með flöskum og steinum. Fór svo að lögreglan læsti sig inni á barnum en fyrir utan stækkaði sífellt hópur hinsegin fólks. Um kvöldið taldi hann þúsundir. Umsátrið varði í viku.

Ári síðar var Stonewall-uppþotanna minnst þegar þúsundir borgarbúa tóku þátt í fyrstu pride-göngunni í New York. Gleðigangan íslenska á þar rætur.

Atburðanna minnst í Reykjavík

Til að minnast dagsins standa Samtökin ’78, fyrir leiðsögn Yndu Gestsson um listsýninguna „Út fyrir sviga: Myndlist og Samtökin ’78“ í Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, kl. 17.00 í dag. Kl. 18.45 verður gjörningur í anda Stonewall-uppþotsins og grillveisla hjá Samtökunum ’78. Um kvöldið verður skálað fyrir Stonewall á veitingahúsinu Geira Smart.