Börn frá sjö til þrettán ára eiga kost á ókeypis námskeiðum í ritlist í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi í sumar. Kennari er Markús Már Efraím rithöfundur.

„Þátttaka barna í dýrum frístundum er minni í Breiðholti en í öðrum hverfum og þar er hátt hlutfall barna sem ekki hafa íslensku að móðurmáli,“ segir Markús Már Efraím, sem kennir börnum skapandi skrif í Gerðubergi í sumar á vegum Fjölskyldumiðstöðvarinnar og fleiri. Hann segir börnin skrifa allt á íslensku á námskeiðinu, þó ekki af því að hann neyði þau til þess.

„Ég ætti samt erfitt með að hjálpa þeim með annað tungumál, nema ensku. Þau hafa hingað til unnið á íslensku, ég tala við þau íslensku og reyni að auka orðaforða þeirra. Því þó börn tali skýrt og skilji margt vantar stundum ákveðna dýpt í málið. Ritlist er góð leið til að bæta úr því.“

Það er gaman að skreppa niður að Elliðaánum á góðum degi.
Mynd/Aðsend

Markús Már kveðst hafa námskeiðið frjálslegt.

„Ég hef lengi hjálpað börnum og veit að maður verður að spila eftir eyranu. Er með góða aðstöðu í Fjölskyldumiðstöðinni í Gerðubergi og við förum á bókasafnið og í Okið sem er skapandi rými fyrir börn. Líka á útileiksvæðin í kring og niður að Elliðaám. Ég vil leyfa börnunum að hreyfa sig og taka inn umhverfishljóð og lykt. Það dýpkar það sem þau skrifa ef þau nota öll skilningarvitin. Á þessu námskeiði blanda ég líka ljósmyndun inn í. Er með þrjár Polaroid-vélar sem framkalla jafnóðum og börnin skiptast á að nota þær. Þeim finnst spennandi að para saman mynd og sögu. Ýmist smella þau af einhverju sem þau sjá úti við og skrifa um það á eftir eða þau mæta með mótaða hugmynd og leita svo að myndefni sem passar við.“

Hann er spurður hvort börnin megi vera með síma í tímum. „Ég er afslappaður kennari og sit við sama borð og börnin, ef þau eiga að skrifa er mikilvægt að þau nái að opna fyrir tjáninguna. Allt eru þetta flottir krakkar og ég hef aldrei þurft að biðja neinn að setja niður símann. Þeir hafa bara svo gaman af því sem er í gangi.“

Markús segir hvert námskeið standa í viku og tólf séu í hverjum hópi .

„Það er eiginlega hámarkstala svo allir fái þá aðstoð sem þeir þurfa,“ segir hann og upplýsir að enn séu laus pláss fyrstu vikurnar í ágúst. „Ég tel að öll börn þurfi aðgengi að frístundastarfi, óháð uppruna og félagslegri stöðu foreldra.“