Kjötsúpuhátíðin á Hesteyri í Hornstrandafriðlandinu fer fram í dag en henni er lýst af aðstandendum sem mögulega minnstu útihátíð landsins.

„Það er nú ekki vandamálið,“ svarar Haukur Vagnsson, spurður um hvort það sé ekki örugglega til nóg til af kjötsúpu fyrir mannskapinn. „Við erum búin að birgja okkur upp. Við erum ekki að stíla okkur inn á neina stórhátíð, enda erum við venjulega minnsta útihátíðin. Hugmyndin er að hafa þetta fámenna en góðmenna sveitastemningu með söng, leik og skemmtun í kringum kjötsúpuna.“

Rætur hátíðarinnar má rekja til móður Hauks, Birnu Hjaltalín Pálsdóttur.

„Móðir mín setti á laggirnar veitingarekstur í kaffihúsinu á Hesteyri í kringum 1994 þar sem hún bauð upp á kjötsúpu sem varð svona ofboðslega vinsæl,“ segir Haukur, sem segir að hátíðin hafi fyrst farið fram í kringum aldamótin. „Þetta hefur verið að mestu leyti árlegt síðan og alltaf um verslunarmannahelgina.“

Hluti af stemningunni felst í því að það er ekki hægt að komast keyrandi til Hesteyrar og er því siglt frá Bolungarvík.

„Við höfum stundum verið að sjá hvali og annað þegar við erum að sigla yfir svo þetta er stundum hvalaskoðun á leiðinni og svo varðeldur um kvöldið, áður en siglt er til baka,“ segir Haukur sem mælir ítrekar auðvitað um ágæti kjötsúpu ættmóðurinnar. „Móðir mín er reyndar sjálf ekki lengur að elda súpuna enda er hún rétt að verða níræð, en hún verður á staðnum í fyrsta skipti í þrjú ár að vakta að við gerum þetta nú örugglega rétt. Það er svo hann bróðir minn, Hrólfur í Læknishúsinu, sem sér um súpuna.“

Hverjir eru það svo sem mynda þetta góðmenna fámenni?

„Mest eru þetta Íslendingar en það slæðist alltaf slatti af útlendingum með,“ segir Haukur. „Þetta er yfirleitt mjög skemmtilegt fólk sem er að koma, sem er auðvitað fyrir öllu. Þetta er bara opið og frjálslegt.“

Miðasölu og frekari upplýsingar má nálgast á heimasíðu Hornstrandaferða.