Í lok níunda áratugarins var Mike Tyson óumdeilanlega besti hnefaleikamaður heimsins og einn þekktasti íþróttamaðurinn. Sprengikrafturinn sem hann bjó yfir hafði aldrei sést áður. Árið 1990 tapaði hann þó óvænt heimsmeistaratitlinum fyrir andstæðingi sem talinn var mun lakari.

Árið 1988 skildu Tyson og eiginkona hans, leikkonan Robin Givens, en hún lýsti því yfir að hann hefði beitt hana heimilisofbeldi. Í viðtali sagði hún hjónabandið hafa verið „hreint helvíti, verra en hún hefði getað ímyndað sér“.

Þann 19. júlí bauð Tyson fegurðardrottningunni Desiree Washington upp á hótelherbergi sitt í Indianapolisborg. Daginn eftir innritaðist hún inn á sjúkrahús í borginni og sagði að Tyson hefði nauðgað sér. Tyson var ákærður og réttarhöldin hófust í janúar ári seinna.

Tyson fékk her frægra lögfræðinga til að verja sig og fjallað var daglega um réttarhöldin í fjölmiðlum. Réttarhöldunum var snúið upp í kynþáttastríð þó að bæði gerandi og þolandi væru dökk á hörund. Í réttarhöldunum miðjum braust út eldur á hótelinu þar sem kviðdómendur gistu. Einn gestur og tveir slökkviliðsmenn týndu lífinu.

Þann 20. febrúar var Tyson fundinn sekur um nauðgun og dæmdur til sex ára fangelsisvistar. Hann sat inni í tæplega þrjú ár. Tyson er enn þá flokkaður sem kynferðisafbrotamaður og þarf að sinna tilkynningarskyldu þess vegna.