Tíurnar voru ekki planaðar í byrjun en mig langaði alltaf að dúxa,“ segir Hornfirðingurinn Ingunn Ósk Grétarsdóttir glaðlega eftir að hafa náð besta stúdentsprófi við Framhaldsskóla Austur-Skaftafellssýslu sem um getur. „Þegar ég hóf þriðja og síðasta árið sá ég svo að það væri gerlegt að enda með eintómar tíur og þannig varð það.“

Útskriftin fór fram síðasta laugardag, þar dúxaði Ingunn Ósk og tók við verðlaunum fyrir framúrskarandi árangur í þýsku og íslensku, auk menntaverðlauna Háskóla Íslands. Þegar hringt er í hana undir kvöld hvítasunnudags er fyrsta spurning hvort verið sé að trufla hana og tefja. „Nei, ég tók nú bara frídag í dag, ákvað að leyfa mér það!“ svarar hún létt og viðurkennir að það hafi ekki gerst lengi. „Mér hefur alltaf þótt gaman að standa mig vel í skóla og má alveg segja að ég sé svolítið nörd!“ Síðan lýsir hún í stuttu máli leiðinni að hinu glæsta stúdentsprófi. „Í 10. bekk grunnskólans tók ég tvo framhaldsskólaáfanga í þýsku og einn í dönsku, samhliða náminu þar, því tungumál eru dálítið mín sterka hlið. Fór svo í FAS haustið 2018 á Náttúru-og raunvísindabraut því ég hef líka áhuga á þeim greinum og gekk vel, þá byrjuðu tíurnar að tínast inn. Svo bara hélt það áfram að gerast.“

Lærði að passa upp á svefninn

Ingunn Ósk segir Covid-19 síst hafa spillt fyrir henni á siglingunni. „Þegar skólinn lokaðist í fyrravor var ég svo heppin að fá fyrirtaks aðstöðu hjá frænku minni. Gekk svolítið brösótt fyrst en svo náði ég taktinum, fór bara í trans, lærði frá 8-16 og þótti endalaust gaman, var alltaf spennt að vakna til að læra eitthvað nýtt. Ákvað svo að ljúka lokaverkefninu til stúdentsprófs í fyrrasumar- og haust, svo það væri búið. Ætlaði bara að búa til plöntusafn sem endaði í gróðurframvindurannsókn. Síðasta vetur gat ég oftast mætt eitthvað í skóla og lærði svo heima á móti, eða á Teams, það var líka fínt, þá gat ég lært það sem mig langaði þegar mig langaði.“ Þó að þetta hljómi ljúft viðurkennir hún að hafa vakað of mikið yfir skruddunum fyrsta árið sitt í FAS. „Ég lenti í því um vorið að brenna næstum út, færðist aðeins of mikið í fang. Síðan hef ég tileinkað mér námstækniaðferðir og passað vel upp á svefninn. Heilinn þarf að hvílast. Svo er líka nauðsynlegt að hreyfa sig, þó ekki sé nema í göngutúr.“

Í tónlistinni líka

Eins og títt er um afburðanemendur hefur Ingunn Ósk sinnt tónlistarnámi líka og það fékk hún metið í FAS. „Ég var að ljúka tíunda ári við Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu. Hef æft á þverflautu í tíu ár og hafði tækifæri til að spila með ungsveit Sinfóníunnar árið 2019. Síðan tók ég líka, upp á gamanið, þrjú ár á saxófón. Við erum afskaplega heppin með Tónskólann, þar er drífandi fólk sem vill allt fyrir mann gera. Það var erfið ákvörðun að fara ekki lengra með tónlistina núna en það má alltaf taka upp þráðinn síðar.“

Ekki er daman síður ánægð með FAS, segir þar góðan anda, góða kennara og góða krakka. „Það eru forréttindi að hafa fengið að vera í FAS,“ segir hún. „Öll samskipti eru svo auðveld og ég hef farið í jöklamælingar, fuglatalningar og alls konar skemmtilegar ferðir sem eru kannski ekki alls staðar í boði. Mér fannst fyrsta árið lengi að líða en allt í einu er ég útskrifuð!“

Hún kveðst geta þakkað mörgum árangur sinn, bæði utan og innan fjölskyldunnar. „Ég hef oft verið í sveit hjá ömmu og afa í Akurnesi, þar hef ég lært að vinna misskemmtileg störf og það er lykilatriði. Sigurður móðurbróðir var að kenna við FAS fyrsta árið mitt. Hann átti fyrra metið við skólann og er ánægður að það sé enn innan fjölskyldunnar!“

Í sumar ætlar Ingunn Ósk að vinna á Hjúkrunarheimilinu á Höfn. „Svo kíki ég náttúrlega í sveitina,“ segir hún. „En í haust stefni ég í líffræði eða lífeindafræði við Háskóla Íslands. Það verður gaman að byrja þar.“