Rannveig Oddsdóttir, lektor við HA, var fyrst kvenna í mark í 55 kílómetra vegalengd í utanvegahlaupinu Súlur vertical við Akureyri síðasta laugardag, á 7.07.46.

„Þetta var náttúrlega langt og mikið á fótinn en fjölbreytt leið og drjúgir kaflar sem ekki var hægt að hlaupa mikið vegna klifurs og bratta,“ segir Rannveig Oddsdóttir, sigurvegari kvenna sem hlupu 55 kílómetra í utanvegahlaupinu Súlur vertical í Eyjafirði. Í því lá leiðin úr Kjarnaskógi við Akureyri, upp á Súlur, þeim fjallgarði fylgt inn á Glerárdal, hlaupið niður í hann, þaðan upp á Hlíðarfjall og að lokum niður í miðbæ Akureyrar, að sögn Rannveigar. Hækkunin var samanlagt 3.000 metrar, eins og einn og hálfur Hvannadalshnjúkur.

„Mér finnst ákveðin hvíld í brekkunum að sumu leyti, ef ég ber utanvegahlaup saman við maraþon, þar sem keyrt er á fullu og maður er að nota nákvæmlega sömu vöðva allan tímann. Í fjallahlaupi er ólíkt álag á líkamann eftir því hvort hlaupið er upp eða niður,“ útskýrir hún. Viðurkennir samt að það sé áraun fyrir stoðkerfið. „Ég finn núna fyrir þreytu í ökklum og upp í kálfa eftir að halda jafnvægi á ójöfnunum.“

Rannveig var fyrst kvenna í mark.

Er loks að smita eiginmanninn

Fyrir tveimur árum tók Rannveig þátt í fjallahlaupi um Alpana. „Það var ekki ósvipað þessu, 56 kílómetra langt með 3.500 metra hækkun,“ segir hún og kveðst hafa iðkað hlaup í rúmlega 20 ár. „Fyrsta maraþonið var 2008, ég hef ekkert stoppað síðan og er ekki með plön um það í bráð. Lengi vel var ég mest í götuhlaupum en svo í utanvegahlaupum líka síðustu árin.“

Hún segir engan á heimilinu á kafi í þessu sporti nema hana, eldri börnin hafi þó aðeins tekið þátt og maðurinn hennar núna hlaupið 18 kílómetra. „Hann er loksins að byrja að fikta við þetta, það er búið að taka langan tíma að smita hann,“ segir hún glettin.

Stefnir á heimsmeistaramót

Ekki er Rannveig alveg búin að plana næstu vikur. „Það stóð til að ég færi á heimsmeistaramót í utanvegahlaupum í Taílandi í nóvember, leiðin liggur upp og niður fjöll samtals 80 kílómetra, ég bíð eftir að frétta hvort af því verður vegna Covid. Svo eru nokkur hlaup eftir hér heima, meðal annars Reykjavíkurmaraþon, en þar er óvissa líka.“

Í lokin áræði ég að spyrja þessa afrekskonu að aldri. „Heyrðu, ég verð 48 núna í desember, ef ég man rétt!“