Við erum flest föst heima en ég vil að fólk geti gægst út fyrir ramma heimilisins gegnum netið og notið þar íslenskrar menningar, hvenær sem því hentar,“ segir Ólöf Breiðfjörð sem nýlega hóf störf sem menningarfulltrúi Garðabæjar. Hún kveðst hafa verið búin að ráða listamenn til að vera með smiðjur í söfnum bæjarins og tónleika í Vídalínskirkju nú á haustönn. „Ég var með fullskipað plan. En þjóðin gekk í gegnum svona tímabil í vor, þá var ég í Kópavoginum og með streymi beint frá viðburðum. Nú ákvað ég að fara aðra leið og búa til þætti sem eru aðgengilegir hvar og hvenær sem er á rásinni vimeo.com/menningigardabae og á síðu bæjarins.“

Bæjarlistamenn láta ljós sín skína

Ólöf kveðst hafa lagt áherslu á að hafa efni þáttanna fjölbreytt. „Í Garðabæ hafa flottir bæjarlistamenn með ólíkar áherslur verið valdir gegnum tíðina og ég leitaði til nokkurra þeirra. Meðal annars tveggja rithöfunda, Bjarna Bjarnasonar sem var valinn 2019 og er að vinna að sögulegri skáldsögu. Í þættinum fer hann djúpt ofan í hvernig rithöfundar nota sögulegar heimildir í skáldsögur sínar. Næsti þáttur er með Kristínu Helgu Gunnarsdóttur. Hún býður fólki heim á vinnustofu sína og leiðir það um sögusvið bóka sinna um Fíusól og fleiri hér í bænum. Hvorutveggja efnið er heillandi.“

Nýjasti bæjarlistamaður Garðabæjar, bassasöngvarinn Bjarni Thor Kristinsson, er einn þeirra sem við sögu koma í þáttunum. Fréttablaðið/Eyþór

Nýjasti bæjarlistamaður Garðabæjar er Bjarni Thor Kristinsson óperusöngvari. „Bjarni Thor er búinn að missa öll sín verkefni frá því COVID byrjaði og það er gaman að geta í senn gefið fólki sem kemst ekki út á tónleika færi á að njóta þeirra og styðja við bakið á listamönnum. Bjarni Thor setti saman dagskrá með lögum sem hann tengir við sinn feril og talar við fólk milli laga. Þetta eru ekki bara Wagner-aríur heldur bland í poka.“

Djassgeggjun og uppáhaldslög

Hin árlega Djasshátíð Garðabæjar féll niður í haust en Siggi Flosa, Ómar Guðjóns, Kristjana Stefáns, Einar Scheving og Þorgrímur Jónsson rigguðu upp djass-stund sem heimurinn getur notið gegnum þessa gátt hennar Ólafar. Svo var nýlega búið að opna sýningu á Hönnunarsafninu, 100% ull, þegar allt skall í lás í haust en viðtöl við alla hönnuðina fylla einn þáttinn.

„Það eru ekki einungis Garðbæingar sem koma við sögu, heldur líka fólk sem tengist bænum gegnum störf sín,“ tekur Ólöf fram og nefnir hjónin Jóhönnu Guðrúnu söngkonu og Davíð Sigurgeirsson gítarleikara sem stjórna kórum í Vídalínskirkju. Þau flytja uppáhaldslög Jóhönnu Guðrúnar í einum þættinum. „Um síðustu helgi fór Birta Guðjónsdóttir sýningarstjóri milli útilistaverka hér í bæ með upptökufólki og lýsir þeim. Þar eru verk sem ég hafði aldrei veitt athygli og hlakka sjálf til að horfa á þann þátt þegar búið verður að setja hann saman,“ segir Ólöf og lofar líka jólalegum þáttum í desember.

Efni þáttanna er aðgengilegt heimsbyggðinni og öllum að kostnaðarlausu. Ólöf giskar á að svona verði þetta til framtíðar. „Þó við losnum vonandi við kórónaveiruna sem fyrst þá eru aldrei allir sem komast á viðburði og það þarf að sinna þeim líka,“ bendir hún á. „Þarna fáum við að skyggnast inn í alls konar heima sem við þekktum ekki áður.“