Árlegt menningarkvöld Teits Magnússonar fer fram á Vínyl við Hverfisgötu nú í kvöld klukkan átta. Teitur heldur þessa veislu sína þriðja árið í röð – vaninn hefur verið að þarna mæti skáld og lesi úr sínum verkum og Teitur bregður ekki út af vananum þetta árið – nema ef skyldi vera að hann sjálfur er í þetta sinn með smá útgáfu sem hann ætlar sér að koma á framfæri.

„Ég er búinn að halda þessi menningarkvöld fyrir jól núna síðustu þrjú ár. Það hefur alltaf verið mikil dagskrá en núna vill svo til að ég er sjálfur að gefa út – ég er að fara að frumsýna myndband sem Haukur Valdimar Pálsson gerði fyrir mig. Hann klippti það úr filmum sem pabbi hans átti og hafði verið að taka upp af fjölskyldunni sinni. Fjölskyldan hans Hauks mun fjölmenna þarna og mögulega bregða á leik – þannig að það verður eins konar fjölskylduþema. Svo eru í myndbandinu líka upptökur úr minni æsku og þessu blandað saman. Svo mun ég þeyta skífum og spjalla við þau skáld sem mæta, þannig að þetta verður líka lifandi spjallþáttur. Haukur mun svo líka bregða á leik og vera með eins konar gjörning,“ segir Teitur aðspurður að því hvernig dagskráin í ár líti út.

Myndbandið er við lagið Kollgátan af nýjustu plötu Teits, Orna, en hún kom út fyrr á árinu við góðar viðtökur. Uppstilling skálda sem munu mæta til teitisins er ekki alveg á hreinu segir Teitur og því verður það að einhverju leyti að koma á óvart.

„Þetta verður allt frekar óvænt – ég er búinn að tala við hóp af skáldum og einhverjir búnir að staðfesta, aðrir jákvæðir og líklegir. Ásdís Halla sem var að gefa út bókina Hornauga er að minnsta kosti að fara að mæta.“