Kassagítarinn er alltaf vinsælastur. Það er bara þannig,“ segir Anton Benedikt Kröyer sem fagnar 30 ára afmæli verslunar sinnar, Gítarsins, í ár. Verslunin var stofnuð árið 1989 og var til húsa að Laugavegi 45 allt til ársins 2001 þegar Anton fór upp á Stórhöfða þar sem hann hefur unað sínum hag í 18 ár.

„Þegar ég byrjaði á Laugaveginum þá var það svipað og að eiga hænu sem verpti gulleggjum. Þá var engin Kringla og engin Smáralind. Verslunin var á Laugaveginum. Svo kom pöbbamenningin og þeir spruttu upp eins og gorkúlur. Þegar ein verslun hvarf á braut kom pöbb í staðinn. Svona gekk það koll af kolli og ég færði mig hingað.“ Verslunin er stórglæsileg og er, eins og nafnið gefur til kynna, með gífurlegt úrval af gítörum en í versluninni eru um 200 gítarar og bassar uppstilltir sem og magnarar og fylgihlutir. „Ég er í góðu rými og stækkaði smátt og smátt.

Sko, gítar er ekki sama og gítar og það er hægt að fá góðan gítar á 20 þúsund krónur og nánast upp úr. Masters-línan hjá Tanglewood, sem eru ofboðslega vandaðir gítarar frá Bretlandi, kostar nokkur hundruð þúsund.“

Anton segir að hann hafi snemma fengið tónlistarbakteríuna og bendir á að það sé miklu meiri afslöppun að spila lag á gítar en að vera í tölvunni. „Við vorum alltaf inni í skúr hjá pabba í gamla daga að hlusta á plötur með Bítlunum og horfa á kanasjónvarpið og stundum að hlusta á kanaútvarpið. Það var mikið um að strákar væru að spila saman á þessum tíma í Kópavoginum og ég er farinn að spila á gítar aðeins 11 ára. Um 17 ára var ég kominn í hljómsveitina Eilífð með Herbert Guðmundssyni og við spiluðum í Tónabæ. Svo var ég í nokkrum hljómsveitum og er enn að.“

Aðspurður um næstu 30 ár segir Anton að þau verði vonandi jafn blómleg og skemmtileg og fyrri ár.