Auðvitað voru öll mín egg í körfum sem liggja í geymslum og safna ryki, leikhús, leiðsögumannsstarf og athafnastjórn hjá Siðmennt,“ byrjar Tryggvi Gunnarsson leikstjóri, spurður út í atvinnumál sín. Heldur svo áfram. „En hópurinn minn, Sómi þjóðar, fékk styrk í fyrra til að gera sýningu og við byrjuðum að forma hana fyrir svið Tjarnarbíós. Sáum svo fram á að þurfa að slást við kollega um æfingapláss og sýningakvöld, loks þegar leyfi fengist, og ákváðum að breyta verkinu í listaverk fyrir hvítt tjald og svið, því innan okkar raða er góður tökumaður.“

Tryggvi segir verkið fallegt þó það fjalli um erfitt málefni, hina hnattrænu hlýnun. „Við tökum það á mennsku nótunum og vonumst til að frumsýna í byrjun apríl. Að því kemur fullt af góðu listafólki sem fær útrás fyrir sköpunarþörfina og líka einhverja innkomu.“

Ferðalangar sögunnar nefnist annað verkefni sem Tryggvi og hans fólk fæst við. Það er hljóðverk sem hlaðið er niður í síma og er ætlað börnum. „Verkið er tengt GPS-hnitum á fyrirframgefinni gönguleið, til dæmis í Elliðaárdalnum og þar fær notandinn að heyra leikrit sem tengist inn í umhverfið,“ lýsir hann. „Þó að fólk hafi farið þessa leið þúsund sinnum áður upplifir það hana á nýjan hátt og fær annan vinkil í útivistina.“