Við ætlum að reyna að fá fólk um borð í skemmtisiglingu að hlusta á mig segja því skemmtilegar sögur,“ segir leik- og bóndakonan Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir, eða Gulla eins og hún er iðulega kölluð.

Gulla mun stýra svokallaðri lygasögusiglingu á vegum Eldingar fimmtudagskvöldið 2. júlí þar sem hún segir farþegum missannar sögur af ýmsum kennileitum í kringum Kollafjörðinn og höfnina. „Eyjarnar þarna í kring eru hafsjór af sögu sem flestir þekkja eitthvað til,“ segir Gulla sem mun meðal annars „fræða“ fólk um sögu Engeyjar, Viðeyjar og Geldinganessins. „Það er alveg óendanlega mikið hægt að snúa út úr sögunni í kringum þessi kennileiti.“

En hvernig verður maður leiðsögumaður í svona ferð?

„Ég er náttúrulega lærður leikari og þess vegna eiginlega með meiraprófið í lygum,“ segir Gulla og hlær. „Það er frábært að fara í alvöru leiðsögn, en það getur líka verið fínt að fara bara til að hafa gaman. Fíflagangur er stórkostlega vanmetinn og virkilega skemmtilegur.“

Ferðin er fyrir alla aldurshópa sem skilja íslensku, sem Gulla segir að gæti þó breyst. „Það fer bara eftir því hvernig farþegahópurinn verður samsettur, hver veit nema ég taki upp á því að ljúga bara á ensku!“

Ef eitthvað er að marka hvað Gulla segir verður lagt af stað frá gömlu höfninni klukkan 20 á fimmtudaginn.