Sigríður Sigurjónsdóttir ber titilinn sterkasta fatlaða kona Íslands eftir mótið Viking Strength challenge sem haldið var hér á landi á síðasta ári. Þar með vann hún sér keppnisrétt á tveimur mótum erlendis á þessu ári, það fyrra er Arnold Disabled Strength Competition /Arnold Open, sem fram fer í Ohio í næsta mánuði. Það síðara, World’s Strongest Disabled Man (and Woman), verður haldið í Þýskalandi í júní.

„Eftir þennan sigur í fyrrasumar hef ég æft af kappi með það í huga að taka þátt í að minnsta kosti öðru hvoru þessara móta og nú læt ég slag standa og stefni á Arnold. Það er fyrst núna sem verið er að byggja upp og halda svona kraftlyftingakeppnir fyrir fatlaða einstaklinga í heiminum. Ég verð eini íslenski keppandinn á þessu móti og jafnframt fyrsta íslenska fatlaða konan sem keppi á svona móti erlendis,“ segir hún og lýsir því hvernig hugmyndin að iðkun kraftlyftinga kviknaði.

„Í fyrravor var verið að sýna keppni um sterkustu fötluðu konu heims í sjónvarpinu, þar var einn keppandi sem sagði að sig langaði að fá fleiri konur í þessa grein. Það varð mér innblástur til að fara að æfa. Ég byrjaði bara að æfa í maí eða júní 2019 en hef samt alltaf verið sterk.“

Aðspurð segir hún fötlun sína fólgna í þroskahömlun. Hún keppi fyrir hönd Suðra, íþróttafélags fatlaðra á Suðurlandi, en æfi í Ármanni, í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardalnum. „Æfingarnar felast aðallega í að lyfta lóðum en það verður eflaust keppt í ýmsum greinum á mótinu í Ohio,“ segir hún. En hverju þakkar hún krafta sína?

„Ég þakka kraftana því að ég ólst upp í sveit við hollan mat og sinnti alls konar verkum, til dæmis að lyfta böggum og fóðurbætispokum,“ segir hún og er spurð nánar út í upprunann. „Ég er undan Eyjafjöllum, bærinn minn heitir Miðmörk. Hann stendur á fallegum stað, og er undir hlíðinni á leiðinni inn í Þórsmörk.“

Ohio-ævintýrið verður ekki fyrsta keppnisferð Sigríðar til útlanda. Hún kveðst hafa keppt í frjálsum íþróttum á móti í Kína árið 2007. „Það gekk bara vel. Ég var bara í kraftagreinum þar,“ rifjar hún upp.

Sigríður mun hafa aðstoðarkonu með sér út til Ohio. „Við förum 4. mars og komum aftur níunda. Þetta er auðvitað heilmikið ferðalag og kostnaðarsamt,“ segir hún og upplýsir að greinin sé ekki innan ÍSÍ og því fari hún á eigin vegum en með fullum stuðningi síns félags og Íþróttasambands fatlaðra. Mörg fyrirtæki og einstaklingar hafi styrkt hana og fyrir það sé hún afar þakklát. Hún hafi stofnað til happdrættis þar sem þrír góðir vinningar séu í boði, fyrsti vinningur gjafabréf í fjögurra rétta sælkerakvöldverð á Hótel Rangá að verðmæti 25.000. Þeir einstaklingar sem styrki hana um 10.000 krónur eða meira fari í pottinn. „Ég dreg þrjá heppna vinningshafa úr pottinum 24. febrúar. Dagskráin á Selfossi mun birta frétt um keppnina að henni lokinni og fyrirtæki geta fengið birt lógóið sitt með þeirri frétt, ef þau vilja styrkja mig um 5.000 að lágmarki. Ég lofa að sjálfsögðu að gera mitt besta.“