Pétur Heimisson hefur unnið ötullega að því síðustu misseri að efla áhuga karla á handprjóni og hvetja þá til að þora að prjóna víðar en heima hjá sér. Eða eins og hann orðar það sjálfur: „Ég hef leitað leiða til að hvetja karlmenn almennt til að prjóna – og prjóna á almannafæri. Fengið stráka sem kunna ekki að prjóna til að læra það og mæta á prjónakvöld.“

Árangurinn er ágætur, að sögn Péturs. „Ég hef verið með prjónakvöld á Kex Hosteli, í hverjum mánuði síðan í janúar, það mættu 50 manns á fyrsta kvöldið, svo hafa verið 30 á hverju kvöldi síðan. Meirihlutinn er konur en þó alltaf sjö til átta karlar. Fyrsta kvöldið mætti strákur sem hafði lært að prjóna í grunnskóla og dustaði rykið af kunnáttunni. Í framhaldinu keypti hann sér band og er að prjóna teppi heima – en heldur líka áfram að mæta á prjónakvöldin. Þangað hafa komið karlar með mikla reynslu, sem prjóna allt upp í 15 peysur á ári. Einn karl mætti á fyrsta kvöldið sem hefur prjónað í fimmtíu ár en aldrei utan heimilisins fyrr en þetta kvöld.“

Hér er hann með peysu á prjónum.

Nú ætlar Pétur að standa fyrir prjónakvöldi fyrir karlmenn í Tjarnarbíói 23. apríl, þá nýkominn heim frá því að syngja með Bachkór Hollands í Mattheusarpassíunni og taka þátt í söngferðalagi með írska kórnum Anúna. „Það stendur til að gera heimildarmynd um prjónamenningu á Íslandi, með áherslu á karlmenn sem prjónara. Ég verð hluti af þeirri mynd. Mun ferðast með tökufólkinu um landið og heimsækja staði sem tengjast ull og ullarvinnslu. Það verður tekið upp efni á prjónakvöldinu í Tjarnarbíói, þess vegna vil ég hvetja alla karla sem kunna að prjóna til að mæta, bæði byrjendur og lengra komna, svo við getum sýnt umheiminum að prjónaskapur á Íslandi sé ekki bara bundinn við konur, heldur séum við karlarnir virkir líka. Það er svo hvetjandi fyrir karla sem eru kannski feimnir við að prjóna að sjá aðra vera óhrædda við það.“

Sjálfur kveðst Pétur hafa iðkað prjónaskap í rúm tíu ár. „Ég var að vinna á Hótel Flatey á Breiðafirði en í pásum var sest niður, oft las einhver upphátt og sumar stelpurnar tóku upp prjóna, þá lærði ég handbrögðin. Svo hef ég haldið áfram af því mér finnst það svo gaman.“

Aðallega eru það peysur sem eftir Pétur liggja en nú kveðst hann vera að ljúka við kósíbuxur sem félagi hans hafi pantað hjá honum. Er það ekki mikið verk? „Jú, það er rosa mikið verk, algert vesen, en á sama tíma skemmtilegt. Það eru ekki til margar uppskriftir að buxum en ég notað bara sömu pælingu og á ermum, nema fleiri lykkjur og jók svo út eftir tilfinningunni og mátaði á sjálfan mig. Mér þykir skemmtilegast að prjóna peysur en sé samt fyrir mér að ég muni gera fleiri buxur því nú er ég búinn að skrifa niður formúluna. Aðalvesenið var af því ég gerði mynstur á báðar skálmarnar. Er með svartan aðallit og svo alls konar hvít tákn.“