Þegar félagið var stofnað fyrir um það bil 90 árum voru fjárbændur úti um alla borg. Fólk var með sjálfsþurftarbúskap og átti kindur í bakgarðinum,“ segir Árni Ingason, formaður Fjáreigendafélags Reykjavíkur. Það er félagsskapur þeirra sem stunda búskap í frítíma sínum í Reykjavík og haldið verður upp á níutíu ára afmæli hans með heilmiklu hófi í kvöld í sal Garðyrkjufélagsins.

Sauðfjárbændurnir í borginni hafa langflestir aðstöðu í svokallaðri Fjárborg sem tilheyrir Hólmsheiði. En þannig hefur það ekki alltaf verið eins og Árni lýsir: „Gamla Fjárborg var þar sem Tengi við Smiðjuveg er núna og þá var réttin þar sem Staldrið er (nú hinum megin við Reykjanesbrautina) en féð gekk meðal annars í Breiðholtinu. Svo hófst uppbygging þar og um 1970 var gert samkomulag við þáverandi borgarstjóra, Geir Hallgrímsson, um land og uppbyggingu fjárhúsa á Hólmsheiði, þar sem við erum núna. Svo eftir tvö ár verður nýja Fjárborgin 50 ára. Þar hefur byggst upp hverfi, upphaflega mátti bara vera fé þar en svo fékkst heimild til að hafa þar smalahesta. Þá komust hestar inn í Fjárborgina og þeir eru orðnir margir í dag.“

En hversu margt fé eiga Reykvíkingar?

„Það eru um 150 vetrarfóðraðar kindur í Fjárborg, í 10 eða 11 húsum, og þær eru í eigu margra, því oft eru fleiri en einn eigandi á bak við hvert hús. Menn sameinast um þennan búskap. Fólk er með fimm ær og upp í 25. Fénu er alltaf að fækka enda borgar sig fyrir okkur sem þurfum að kaupa öll aðföng að fara út í búð og kaupa okkur kjöt. En þetta er fyrir gamanið gert.“

Afrétturinn er á Sandskeiði, norðan Suðurlandsvegar, að sögn Árna, og fjáreigninni tilheyra töluverðar smalamennskur, eins og vænta má, meðal annars um Hengilssvæðið. „En það er alltaf vel mannað í leitum, jafnvel um 40 manns sem mæta í þær og nánast smalað öxl við öxl í seinni tíð,“ segir hann.

Árni segir á annað hundrað manns í félaginu. Þar af bara einn sem er einungis með kindur, aðrir bæði með hesta og kindur en meirihluti félagsmanna er eingöngu hestamenn. „Þátttaka í félaginu er skilyrði fyrir því að fá hús í Fjárborg,“ útskýrir hann. „Fjáreigendafélagið virkar þannig líka sem húsfélag. Svo er einn félagsmaður með fé utan Fjárborgar. Það er Ólafur Dýrmundsson, fyrrverandi ráðunautur Bændasamtakanna, sem hýsir sínar kindur uppi í Jóruseli í Breiðholti.“ Innan félagsins eru margir sérstakir karakterar, að sögn Árna. „Margir þessir eldri eru uppaldir í sveit og vanir skepnuhaldi. Svo hefur orðið nýliðun, það hefur komið inn ungt fólk sem finnst gaman að vera með kindur og það er vel.“

Hvernig verður þetta hóf hjá ykkur í kvöld?

„Bara hefðbundið. Við ætlum að hittast og borða góðan mat, Ari Eldjárn ætlar að skemmta okkur og svo kemur hljómsveit að spila fyrir dansi.“

gun@frettabladid.is