Erindi mitt fjallar um Hornstrandir og Árneshrepp í vitund þjóðar, þar liggur hluti af okkar menningar- og atvinnusögu, segir Finnbogi Hermannsson, fréttaritari og rithöfundur. Hann er meðal frummælenda á fundum Landverndar sem sendir verða út frá Edinborgarhúsinu á Ísafirði 10. til 12. september á slóðinni https://landvernd.is/fundarod-vestfirdir-2020/. Erindi Finnboga verður meðal efnis á laugardaginn milli klukkan 14 og 15.

„Ég kom fyrst í Árneshrepp 1979 að gera útvarpsþætti um Síldarævintýrið á Djúpuvík, þeir hétu Þar sem kreppunni lauk 1932. Þórir Steingrímsson tæknimaður, ættaður úr Veiðileysu, fór með mér. Síðar kom ég að heimildamynd sem Hjálmtýr Heiðdal og Anna Kristín Kristjánsdóttir gerðu, hún hét Öll erum við orðin rík á Ingólfsfirði og Djúpuvík,“ rifjar Finnbogi upp. Hann hefur ekki trú á þýðingu virkjunar fyrir Árneshrepp og telur hana ekki bjarga mannlífinu þar til framtíðar. Finnst líka 55 megavött of dýru verði keypt vegna gífurlegra breytinga á náttúru svæðisins. En hefur álit á nýjum forstjóra HS Orku. „Það er maður sem kann að reikna, ég held hann hafi farið að skoða hvað það kostar að koma þessu afli til mannabyggða, það eru óheyrilegar tölur.“

Stórafmæli nálgast hjá Finnboga en hann kveðst vera í fullu fjöri og hafa mörg járn í eldinum. „Ég var að skrifa sögu sem ber vinnuheitið Óspakseyrargáta. Hún fjallar um bónda sem fór póstferð og skilaði ekki 85 krónum sem talið var hálft kýrverð árið 1910. Þetta er sakamálasaga. Þessir peningar komu aldrei fram.“ Finnbogi er í bænum í vinnuferð vegna þessarar bókar en kveðst þurfa að fara að komast vestur í Hnífsdal að taka upp kartöflurnar, sem þau hjón rækti sér til lífsuppbyggingar.