Þarna er yfirlit yfir minn feril. Öll tónlistin er sígild og upptökurnar vandaðar,“ segir Selma Guðmundsdóttir um safndisk með píanóleik hennar. Hann hefur yfirskriftina Quo vadis/Hvert liggur leið þín? Ein upptakan er frá tónleikum í Íslensku óperunni með Kammersveit Reykjavíkur en hinar eru gerðar í Ríkisútvarpinu.

„Útvarpið var með gott stúdíó og fína tækni og fylgdist vel með tónlistarlífinu. Fyrsta upptakan með mér var Carnival eftir Schumann. Þá var ég 21 árs, nýbúin með lokatónleika úr tónlistarskólanum. Magnús Blöndal Jóhannsson tónskáld var upptökustjóri. Svo hefur Bjarni Rúnar Bjarnason, tónmeistari RÚV til margra ára, séð um lokahljóðvinnslu við útgáfuna,“ lýsir Selma. „Þetta er svo mikið efni að diskurinn varð fjórfaldur. Þar er meðal annars stór konsert eftir Khatsjatúrjan sem ég spilaði með Sinfóníuhljómsveitinni 1988. Hann tekur næstum 40 mínútur.“

Selma segir tilviljun að af útgáfunni varð. „Þegar geisladiskur með Árna Kristjánssyni, gamla píanókennaranum mínum, kom út, hitti ég Bjarna Rúnar sem sagði margar upptökur til hjá útvarpinu með minni spilamennsku. Ég ætlaði ekki að þora að hlusta á þær en svo fannst mér þær mun betri en ég bjóst við og af því að það voru 40 ár frá því ég hafði debúterað langaði mig að gefa þær út.“

Titil diskanna rekur Selma til sumardvalar í Róm þar sem hún kveðst hafa farið að líta í huganum til baka yfir líf sitt og feril.

„Það var ekkert auðveldasta leiðin sem ung kona gat valið sér að ákveða að verða píanóleikari. Ég fann að sumum fannst það ekkert sniðugt, einkum af því að ég var orðin tveggja barna móðir um tvítugt og komin með fjölskyldu. En löngunin til náms var sterk og margir hvöttu mig. Meðal annars stóðu foreldrar mínir alltaf við bakið á mér og hjálpuðu mér mikið, enda er diskasafnið tileinkað þeim og börnunum mínum fjórum.

Selma ber lof á kennarana sína. „Árni Kristjánsson var ekki aðeins besti kennari sem ég gat haft heldur var hann líka mikill áhrifavaldur í lífi mínu. Svo kom einn virtasti kennari Evrópu, Hans Leygraf, til landsins, og var með meistaranámskeið, hann bauð mér að verða nemandi sinn og að hjálpa mér að útvega styrki. Því boði var ekki hægt að hafna, enda lögðust margir á eitt. Þá var ég orðin 23 ára.

Það er Polarfonia Classics sem gefur diskinn út og hann er til sölu í 12 tónum. Útgáfuhóf er á afmælisdaginn minn, 26. október, í Listasafni Einars Jónssonar á Skólavörðuholti.“

Lögin á diskinum

Á diskinum eru 10 einleiksverk sem spanna tímabil frá Bach til Scriabins, fiðlusónata eftir Mozart með Sigrúnu Eðvaldsdóttur, sellósónata eftir Chopin með Gunnari Kvaran og tvö kammerverk með Kammersveit Reykjavíkur. Allt stúdíóupptökur nema Píanókvintett eftir Cesar Franck með kammersveitinni sem er beint af tónleikum. Með diskunum fylgir 48 síðna bæklingur með minningabrotum Selmu auk viðtals og greinar eftir Elísabetu Indru Ragnarsdóttur.