Þó að fjölmenn mannamót falli niður um helgina í ár er smáhátíðin Nábrókin haldin í Trékyllisvík eins og strandir.is greinir frá og Melasystirin Ellen staðfestir.

„Við komum hátíðinni á koppinn að svo miklu leyti sem við gátum innan leyfilegra marka. En ballið í kvöld er út úr myndinni,“ segir Ellen Björg Björnsdóttir, ein þriggja Melasystra sem árlega hafa haldið samkomur í Trékyllisvík um verslunarmannahelgar síðan 2013. Hinar systurnar heita Þorgerður og Árný en hátíðin nefnist Nábrókin og vísar í galdrasögu svæðisins.

„Við systur vorum með tónleika í gærkveldi og nokkrir fleiri stigu á svið,“ lýsir Ellen. „Við gerðum það líka í fyrra, þá komu alls konar lokanir til skjalanna á fimmtudeginum en við færðum tónleikana inn í fjárhús á Melum, náðum að stía fólkið og töldum inn og sami háttur var hafður á nú. Þá máttu vera 100 manns með tveggja metra millibili en nú 200 með einn metra á milli. Reyndar voru fimmtán ára og yngri undanþegin reglunum í fyrra en nú sex ára og yngri.“

Þær systur búa að reynslu af því að stía lambfé í fjárhúsunum og léku sér að því að merkja stíurnar bæjum í hreppnum. „Við ýttum við fólki og báðum það að giska á mannfjöldatölur frá hverjum bæ svo við gætum miðað stíurnar við þær. Það bókuðu sig yfir sjötíu manns og við skildum líka hólf eftir fyrir þá sem ekki létu vita af sér. Það kemur sér vel að fjárhúsin á Melum eru frekar stór.“

Ellen er ánægð með að í ár er hægt að halda drulluboltann en hann féll niður í fyrra. „Það verða bara fimm, sex lið núna og hafa aldrei verið jafn fá. En það er gott. Boltinn verður klukkan 13 í dag í Arnarbæli, gömlu túni sem við erum hætt að nota. Þar er alvöru mýri frá náttúrunnar hendi og við tættum hana upp fyrir nokkrum dögum því hún grær aðeins milli ára.“ Þó ballið í kvöld falli niður segir Ellen brekkusöng koma í staðinn þar sem Ragnar Torfason, frændi þeirra systra, verði með gítarinn.

Titill Ellenar í símaskránni er smali en aðspurð kveðst hún að aðalstarfi vera forstöðukona í íbúðakjarna fyrir fatlaða í borginni. Nú er hún í sumarfríi og taugin römm sem dregur hana í sveitina.