Um fjögur hundruð grunnskólabörnum í Hafnarfirði verður boðið á tónleika í Hásölum, við Strandgötuna, á morgun. Þá mun Sinfóníuhljómsveit Tónlistarskóla Hafnarfjarðar, ásamt Strengjasveit Tónlistarskóla Garðabæjar, flytja söguna Maxímús Músíkús trítlar í tónlistarskólann, með sögumanni, myndum og tónlistaratriðum. Á efnisskránni verða hljómsveitarverkin Í höll Dofrakonungs eftir Grieg, þáttur úr Leikfangasinfóníunni og að sjálfsögðu Lagið hans Maxa, sjálfur Maxímús Músíkús kemur í heimsókn og dansar við lagið sitt.

Fimm einleiksatriði eru líka á efnisskránni. Ungir einleikarar á blásturs- og strengjahljóðfæri koma fram með hljómsveitinni og flytja meðal annars þjóðlögin Á Sprengisandi og Krummavísur, auk verka eftir Dvorák og Gossec. Stjórnandi hljómsveitarinnar er Ármann Helgason sem hefur fengið dyggan stuðning og aðstoð frá strengjakennurum úr Hafnarfirði og Garðabæ við verkefnið.

Eiríkur Stephensen, skólastjóri Tónlistarskólans, verður sögumaður á tónleikunum. Sá hefur nú æfingu í að koma fram. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Þetta er táknrænn viðburður því um 70 ár eru frá því kennsla í píanóleik hófst í Hafnarfirði og þá á vegum Tónlistarfélags Hafnarfjarðar. Sú kennsla var aðdragandi stofnunar Tónlistarskóla Hafnarfjarðar ári síðar. Á heimasíðu skólans kemur fram að fyrstu ár hans hafi áhugi bæjarbúa á tónlistarnámi verið lítill og erfiðlega hafi gengið að laða þá að skólanum en aðsókn hafi aukist með árunum með bættum aðbúnaði.

Eiríkur Stephensen er að hefja annað starfsár sitt sem skólastjóri Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. Hann er líka annar helmingur dúósins Hundur í óskilum, svo því sé haldið til haga. Eiríkur segir velvilja bæjarbúa í garð Tónlistarskólans mikinn, svo áhugaleysið heyrir greinilega sögunni til. „Það varð náttúrlega heilmikil breyting á starfsemi skólans árið 1997 þegar Hásalir, hið glæsilega húsnæði skólans, var tekið í notkun. Nú er verið að byggja húsnæði fyrir tónlistarkennslu við Skarðshlíðarskóla á Völlunum og það verður tekið í gagnið næsta vetur.“

Eiríkur kveðst kunna afskaplega vel við sig í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar. „Þetta er öflugur skóli með góðan kennara- og nemendahóp. Við erum með sinfóníuhljómsveit, lúðrasveitir, rytmískar sveitir og alls konar samspil.“

Spurður hvort hann komi eitthvað að Maxímúsarverkefninu svarar Eiríkur: „Ekki nema sem sögumaður á tónleikunum og svo áheyrandi.“

Maxímúsartónleikarnir verða líka á ókeypis fjölskyldustund í Kaldalónssal Hörpu á sunnudaginn, 27. október, klukkan 11.30 og þangað eru allir velkomnir á meðan húsrúm leyfir.