Ferðaþjónustubændurnir Haukur Snorrason ljósmyndari og Hadda Björk Gísladóttir, matar- og ferðaþjónustufrömuður, hafa nýverið gefið út bók sem heitir Our Land – Food & Photography og þar er að finna mataruppskriftir eftir Höddu Björk og myndir eftir Hauk.

„Útgangspunktur bókarinnar er Hrífunes,“ segir Hadda Björk en hún ásamt og eiginmanninum Hauki rekur lítið gistihús í Hrífunesi ásamt ferðaskrifstofu sem sérhæfir sig í ljósmyndaferðum um Ísland.

Hrífunes Guesthouse er í Skaftártungu á milli Víkur í Mýrdal og Kirkjubæjarklausturs. Þaðan er stutt í hálendi Íslands og í Fjallabaksleiðir syðri og nyrðri sem og suðurströndina. Gistiþjónustan, sem er opin allt árið nema í desember og janúar, tekur um 30 manns í uppábúin rúm. Gistihúsið hefur getið sér gott orð fyrir notalegt andrúmsloft og ljúffenga eldamennsku þar sem íslenskt hráefni er í hávegum haft.

„Mig langaði að setja saman uppskriftabók. Gestir í Hrífunesi hafa margsinnis beðið okkur um uppskriftir. Það var kominn tími á að setja þetta saman í bók og draga inn stemminguna sem er við matarborðið í Hrífunesi,“ segir Hadda Björk.

Á sama tíma var Haukur að huga að útgáfu á ljósmyndabók, en hann hefur gefið út tvær bækur með landslagsmyndum.

„Við vorum að karpa um hvort myndi fara í forgang, uppskriftabókin eða ljósmyndabókin. Í góðum hjónaböndum miðla menn málum,“ segir Hadda brosandi. „Niðurstaðan var að slá þessu saman í eina bók.“

Bókin sem gefin er út á ensku skiptist í þrjá hluta.

Í fyrsta hlutanum er fjallað um Hrífunes, sögu samkomuhússins þar sem gistihúsið er rekið, jarðfræði og víkingagrafir á staðnum. Þá er vikið að eldgosinu árið 2010 og fleira er tilheyrir svæðinu.

Hjónin Haukur Snorrason ljósmyndari og Hadda Björk Gísladóttir matarfrömuður.

„Við keyptum gamla samkomuhúsið í Hrífunesi sem sumarbústað árið 2007 en eftir hrunsárin breyttum við því í gistihús sem við stækkuðum smá saman eftir efni og aðstæðum og í takti við fjölgun ferðamanna, eftir því sem árin liðu.“

Annar hluti bókarinnar hefur að geyma um 40 girnilegar mataruppskriftir. „Þetta eru þær uppskriftir sem við notum mest í Hrífunesi. Gestirnir okkar borða saman við þrjú langborð. Við getum tekið 30 gesti í mat og nær undantekningarlaust skapast mjög fallegt andrúmsloft. Menn skiptast á skoðunum og miðla reynslu sinni af ferðalögum um Ísland. Við bjóðum upp á súpu, heimabakað brauð og blandaða rétti sem forrétt og aðalrétturinn er svo borinn fram sem hlaðborð. Aðalrétturinn byggir á íslensku hráefni t.d. lambakjöti, fiski, kartöflum, hvítkáli, rófum og byggi en við notum mikið erlend krydd s.s. arabísk, indversk og marokkósk krydd sem gefa matnum alþjóðlegan blæ,“ segir Hadda og bætir því við að matarljósmyndirnar séu teknar af Karli Peterson, einum færasta matarljósmyndara landsins, en hann starfar einnig sem kokkur.

Matarmynd úr bókinni Our Land.jpg

Matarmynd úr bókinni Our Land

Síðasti hluti bókarinnar inniheldur um 80 stórbrotnar ljósmyndir Hauks af náttúru Íslands. Þær eru teknar úr lofti sem á láði á suðurhluta Íslands og á hálendinu. Hann hefur myndað Ísland í þrjá áratugi og gefið út tvær landslagsljósmyndabækur.

Haukur starfar einnig sem leiðsögumaður og leiðir ljósmyndaferðir um Ísland fyrir ljósmyndaáhugafólk víðs vegar að úr heiminum. „Eftir hrun hætti ég að starfa sem atvinnuljósmyndari og fór að mestu yfir í ferðaþjónustu til að bjóða upp sérsniðnar ljósmyndaferðir. Mest gaman finnst mér að fara með mína viðskiptavini á fáfarna fallega leynistaði sem finnast á okkar svæði.“

Hann segir ljósmyndirnar í bókinni úr nágrenninu. „Frá Hrífunesi er stutt í margar perlur á suðurhluta hálendis Íslands jafnt sem helstu ferðamannastaði með fram suðurströndinni. „Það er hægt að keyra þetta í dagsferðum frá gistihúsinu okkar,“ segir Haukur og bendir á kort sem er aftast í bókinni af tökustöðum.

Þetta er falleg bók sem ætti að höfða til allra þeirra sem kunna að njóta góðra máltíða og ferðast um og upplifa náttúru Íslands.