Ég er ekki viss um að það sé hægt að lýsa pólskri matarmenningu í fáeinum setningum. Það eru svo margir þættir sem hafa áhrif á það hvernig, hvenær og hvað við borðum. Meðal annars eru það hlutir eins og landafræði, saga og trú. Þetta mótar allt okkar matarmenningu og hvernig hún breytist,“ segir Johanna Predota, sem heldur í dag fyrirlestur um pólska matarmenningu.

Fyrirlestur Johönnu er hluti af Pólskum dögum sem hefjast í Veröld – húsi Vigdísar og standa þeir fram á föstudag. Auk Vigdísarstofnunar eru það Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands, Sendiráð Póllands á Íslandi og Háskólinn í Varsjá sem koma að skipulagningu Pólskra daga.

Pólska sendiráðið mun bjóða gestum að smakka á ekta pólskum mat að fyrirlestrinum loknum en hann hefst klukkan 17. Meðal annarra viðburða á Pólskum dögum má nefna sýningu á kvikmyndunum Corpus Christi og Vinci en Johanna mun vera með stuttar kynningar á myndunum.

Sjálf starfar Johanna sem kennari við Miðstöð pólsks tungumáls og menningar fyrir erlenda nemendur í Háskólanum í Varsjá. Þar kennir hún erlendum nemendum pólsku.

„Eins og yfirleitt í tungumálanámi þá er matur mikilvægt umfjöllunarefni hjá okkur. Á öllum menningarsvæðum er matur einn af mikilvægustu hlutunum í daglegu lífi fólks.“

Varðandi það hvernig matarmenning getur breyst með tímanum af utanaðkomandi ástæðum nefnir Johanna sérstaklega neyslu svínakjöts í Póllandi.

„Samkvæmt sögulegum heimildum var svínakjöt nánast ekki að finna á borðum Pólverja á öldum áður. Þetta breyttist allt á 19. öld vegna mikilla stríðsátaka. Svínakjöt reyndist frekar ódýrt og auðvelt að framleiða til að fæða hermennina. Nú getum við sagt að það sé helsta kjötið sem notað er í pólskri matargerð.“

Sjálf er Johanna að koma til Íslands í fyrsta skipti og segist hún vera mjög spennt og þakklát fyrir þetta tækifæri. Hún vonast til að geta notað tíma sinn hér til að kanna Reykjavík.

Um síðustu áramót bjuggu á Íslandi rúmlega 20 þúsund Pólverjar og eru þeir langstærsti hópur erlendra ríkisborgara hér. Aðspurð segist Johanna vonast til að viðburðir af þessu tagi skipti máli, bæði fyrir pólska samfélagið á Íslandi en líka fyrir Íslendinga.

„Þetta er góð leið fyrir Pólverja til að sýna nýja samfélaginu sínu meira af menningu sinni og uppruna. Þannig getur fólk kynnst betur og skilið hvert annað betur.“

Dagskrá Pólskra daga er hægt að nálgast á heimasíðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum, vigdis.hi.is en aðgangur á alla viðburði er ókeypis.