Alls kepptu sjö fuglategundir um titilinn í keppninni í ár sem Fuglavernd stendur fyrir og tóku um 2.100 manns þátt í kosningu á vefnum. Þar hlaut maríuerlan 21 prósent atkvæða en á eftir henni fylgdu himbrimi og auðnutittlingur með 14 prósent atkvæða hvor um sig.

Maríuerlan er lítill og fallegur spörfugl, grá á baki með svartan koll og bringu en hvít á kviðinn. Hún er farfugl og flýgur til Vestur-Afríku á haustin en hér á landi má oft finna hana í kringum mannabústaði um vor og sumur.

Þótt maríuerlan sér ekki eiginlegur ránfugl þá er hún í rauninni veiðidýr því hún tínir fiðrildalirfur, köngulær og önnur smákvikindi og er því mikilvæg í görðunum okkar til að halda góðu jafnvægi í lífríkinu.

„Fólk er virkilega hrifið af maríuerlunni sem meðal annars endurspeglast í vinsælum mannanöfnum,“ segir Brynja Davíðsdóttir, verkefnastjóri hjá Fuglavernd. „Persónulega þá vinn ég sjálf við keramik með handmáluðum fuglamyndum og þá koma oft bæði kvenna- og karlahópar og oftar en ekki er haft orð á því þegar maríuerlan kemur heim á hlað hjá þeim á vorin. Þær eru oft bara ein eða tvær, verpa í grennd og verða oft staðarfugl fólks.“

Maríuerlunni virðist Ísland ansi kært en Brynja segir að sem farfugl komi fuglinn tiltölulega snemma árs aftur til landsins og fari seint. „Það er enn þá stöku maríuerla trítlandi um í kringum hjá mér, sem mér þykir mjög vænt um að sjá,“ segir hún.

Góð þátttaka í vefkosningunni bendir til þess að Íslendingar séu ágætlega mikið fuglafólk.

„Ég held það séu kannski tveir hópar af fuglaáhugafólki á Íslandi. Annars vegar er fólk sem hefur mikinn áhuga á fuglum og þekkir til og svo hins vegar hópurinn sem hefur áhuga en hefur ekki fengið mikla fræðslu og veit ekki alveg hvar hann ætti að fá frekari upplýsingar til að verða færara í að þekkja algengustu fuglana,“ segir Brynja.

„Við höfum verið að reyna að matreiða þetta á aðeins aðgengilegri hátt á heimasíðunni okkar hjá Fuglavernd heldur en bara hávísindalega og tókum fyrir tuttugu tegundir til að byrja með á fuglavernd.is.“