Fimmtán ár eru liðin í dag frá því að 193 fórust og 2.050 særðust í sprengjuárásum á lestar í Madríd, höfuðborg Spánar. Sprengjuárásirnar voru þær mannskæðustu í sögu Spánar og þær mannskæðustu í Evrópu frá Lockerbie-árásinni 1988. Engin hryðjuverkaárás hefur verið gerð í Evrópu síðan ráðist var á Madríd sem hefur heimt svo mörg líf.

Fréttablaðið fjallaði um árásina á sínum tíma. Í frétt blaðsins frá deginum eftir árásina sagði að eyðileggingin hefði verið algjör, lestir sprungið í loft upp og lík þeyst til og legið eins og hráviði í og við lestir og lestarstöðvar. „Verst var aðkoman á El Pozo-lestarstöðinni þar sem tvær sprengjur sprungu og bönuðu ekki færri en sjötíu manns,“ sagði í fréttinni.

Haft var eftir Jose Maria Aznar, þá forsætisráðherra Spánar, að hann grunaði ETA, aðskilnaðarhreyfingu Baska, um árásirnar. Stutt var þá frá því að tveir ETA-liðar voru handteknir við komu sína til Madrídar á flutningabíl hlöðnum efnum til sprengjugerðar.

Arnold Otegi, leiðtogi Batasuna, stjórnmálaflokks Baska, neitaði ásökununum og sagði að Arabar kynnu að bera ábyrgð á árásunum.

Strax þremur dögum síðar birtist myndskeið þar sem Abu Dujana al-Afghani, sagður talsmaður al-Kaída í Evrópu, lýsti yfir ábyrgð hryðjuverkasamtakanna af árásinni. Spánverjar handtóku í kjölfarið hóp Marokkómanna, Sýrlendinga, Alsíringa og tvo uppljóstrara innan spænsku lögreglunnar vegna meintrar aðkomu að málinu.

Eltingaleikurinn við meinta árásarmenn var langur og erfiður. Til að mynda styttu sjö grunaðir hryðjuverkamenn sér aldur og myrtu lögreglumann þegar þeir sprengdu sprengju í úthverfi Madrídar í þann mund sem lögreglumenn reyndu að klófesta þá.

Tveimur árum seinna, þann 11. apríl 2006, voru 29 ákærur gefnar út í málinu. Þyngstu sakirnar voru bornar á sjö einstaklinga. Fimm þeirra voru sakaðir um skipulagningu og framkvæmd en tveir um samstarf.

Svo fór að átta voru sýknaðir, þar á meðal meintur höfuðpaur, Rabei Osman. Átján voru sakfelldir fyrir minni brot og þrír fyrir alvarlegustu brotin og dæmdir í þúsunda ára fangelsi. Þeir munu hins vegar ekki afplána nema fjörutíu. Við áfrýjun var sakfellingum yfir nokkrum ákærðu snúið við.