Arndís Ósk er í önnum heima hjá sér að Hólmi á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu þegar hringt er í hana. Þar rekur fjölskylda hennar gistingu og veitingastað, auk hefðbundins búskapar með tilheyrandi heyskap á þessum árstíma. Hún kveðst hafa unnið þar á sumrin frá því hún var krakki og alltaf sé nóg að gera. „Það er kannski örlítið minna að gera í ferðaþjónustunni en í fyrra, en samt fullt og alls ekki hægt að kvarta,“ segir hún.

Arndís Ósk útskrifaðist með besta árangur á stúdentsprófi frá Framhaldsskólanum í Austur-Skaftafellsýslu (FAS) í vor og í nýlegu viðtali í Eystrahorni ber hún mikið lof á skólann og andrúmsloftið þar, sem hún segir hvetjandi og skapandi. Hún ætlar að hefja laganám í haust við Háskóla Íslands og hlaut nýlega styrk úr Afreks- og hvatningarsjóði skólans. Samkvæmt Eystrahorni eiga styrkþegar það sameiginlegt að hafa náð framúrskarandi námsárangri og einnig verið virkir í félagsstörfum, listum eða íþróttum og Arndís Ósk hefur stundað píanónám í Tónskóla Austur-Skaftafellssýslu í tíu ár og gert sig gildandi í félagsmálunum þar eystra.

Spurð af hverju lögfræðin hafi orðið ofan á þegar hún valdi háskólagrein svarar Arndís Ósk: „Ég hef brennandi áhuga á mannréttindum og stefni að því að starfa innan þess sviðs, held að laganámið sé ágæt nálgun að því, ég ætla að minnsta kosti að prófa.“ Hún kveðst hafa verið í ungmennaráði og nemendaráði fyrir austan og líka sjálfboðaliði fyrir Amnesty International. „Ungliðastarf Amnesty hefur verið kröftugt á höfuðborgarsvæðinu en ég og vinkonur mínar á Höfn stofnuðum Austurlandsdeild árið 2016,“ lýsir hún.

Störfin innan deildarinnar felast í að halda viðburði og vera með undirskriftasafnanir öðru hverju að sögn Arndísar Óskar. „Við látum sjá okkur á ýmsum samkomum og reynum að vísa í umræðuna sem er efst á baugi hverju sinni. Á nýliðinni Humarhátíð sögðum við þeim sem heyra vildu sögur af umhverfissinnum sem hafa barist fyrir náttúruna en orðið fyrir aðkasti og höfum líka verið með jafningjafræðslu við Grunnskóla Hornafjarðar,“ lýsir hún. Segir starfsmenn og nemendur FAS hafa stutt þær dyggilega. „Við höfum fengið styrk í fjöldanum þar.“