Ertu aldrei í leti­kasti? er fyrsta spurning sem af­mælis­barn dagsins, Guð­rún Berg­mann fær. „Veistu, ég held ekki,“ svarar hún. „Ég var virk sem krakki en þó var ég ró­legri þá en nú. Ég er alltaf eitt­hvað að gera. Ef ég er ekki að vinna við skriftir eða úti á akrinum þá er ég að púsla, ráða kross­gátu eða virkja hugann á annan hátt. Svo af því ég er alltaf að tala um heilsu­mál, reyni ég að fræðast um það nýjasta sem fram kemur í þeim efnum, fylgjast með rann­sóknum og þeim læknum sem stunda heild­rænar lækningar. Stundum er sagt að maður læri svo lengi sem maður lifir og ég held ég læri miklu meira í dag en þegar ég var í skóla. Ég prenta upp­lýsingar úr tölvunni og les þær, það hentar mér betur en að hlusta. Stundum þarf ég líka að vitna til þeirra. Nei, ég man ekki eftir leti­kasti í mörg ár.“

Endur­ræsti heilsuna


Ekki kveðst Guð­rún gera sér grein fyrir hvort það að verða sjö­tug hafi á­hrif á vinnu hennar. „Ég held bara mínu striki enda er ég sjálf­stætt starfandi. Segist stundum vera 23 en líkaminn sé búinn að vera hér síðan 1950. Í mínum huga eru það tveir mis­munandi hlutir. Ég stunda dag­lega líkams­rækt, hugsa um matar­æðið og tek bæti­efni og heilsan er betri í dag en hún var þegar ég var fer­tug. Ég barðist við ýmiss konar óþol sem langan tíma tók að finna réttu ráðin við. Það er svona að fæðast ekki með hand­bók,“ segir hún. „Í hótel­rekstrinum á Hellnum á Snæ­fells­nesi vann ég líka svo mikið, að þegar ég hætti þar var heilsan við núllið. Það þurfti að endur­reisa hana og nú er hún á milli 8,5 og 9,5 á skalanum 0-10, enda passa ég upp á hana. Hún er númer eitt því ég hef á­kveðið að vera hér tölu­vert mikið lengur. Á fjögur barna­börn, tvö á Ís­landi og tvö í Banda­ríkjunum og vil gjarnan fá að fylgjast með þeim þegar þau verða eldri.“

Guð­rún tók sér Berg­manns­nafnið þegar hún giftist Guð­laugi Berg­mann, sem stofnaði Karna­bæ og fyrstur hóf að selja táninga­fatnað á Ís­landi. „Gulli var Berg­mann, ekki ég. Drengirnir okkar Guð­jón og Guð­laugur tóku það nafn líka. Þrír fyrstu stafirnir voru eins í öllum nöfnunum okkar og eftir­nafnið. Ég setti nafn­spjald á húsið okkar þegar drengirnir voru litlir og þetta kom skemmti­lega út þegar maður horfði á það.“

Guð­rún rak hótelið á Hellnum í fimm ár eftir að eigin­maðurinn, Guð­laugur Berg­mann, féll frá og það verða 16 ár frá and­láti hans núna í desember. Spurð hvort hún eigi ein­hvern dans- eða sálu­fé­laga nú svarar hún: „Nei, ég á hvorki dans­fé­laga né kærasta. Segi gjarnan þegar ég er spurð að ég hafi ekki hitt neinn sem ég nái rétta sam­bandinu við. Ég er sátt við líf mitt eins og það er og geri í raun allt sem ég vil, það er bara frá­bært.“

Frekar ferða­lög en veislur


Meðal þess sem Guð­rún hefur fengist við síðustu ár er farar­stjórn hjá Bænda­ferðum. „Ég átti að vera í Ind­landi núna. Fór í fyrra með hóp þangað og átti að fara í aðra ferð núna 19. októ­ber, en hún var felld niður af aug­ljósum á­stæðum, eins og svo margt á þessu ári. Ég var búin að hlakka til að vera í Ind­landi á af­mælinu mínu. Ef á­ætlunin hefði staðist hefði ég verið þann dag í borginni Varanasi við Gan­ges­fljótið, heila­gri borg hindúa. Kom þangað í fyrra og það er stór­kost­legt.“

Nú segir Guð­rún lítið hægt að gera í sam­bandi við veislu­höld. „Enda vil ég frekar ferðast til að fagna tíma­mótum en að halda stóra veislu með mat og drykk, það er ekki minn stíll. En ég fæ fjöl­skyldu stráksins míns sem er hér á landi í heim­sókn og við blásum á kerti og höfum gaman saman.“