Litrík myndverk í tugatali eru reist upp við veggi Grafíksalarins við Tryggvagötu þegar ég kíki þar inn. Þar ætlar Ása Ólafsdóttir að opna sýningu á akrýlverkum á skírdag klukkan 14 og sýningarstjórarnir tveir, Arna Fríða Ingvarsdóttir og Sandra María Sigurðardóttir, hafa úr nógu að velja. Ása segir myndirnar allar gerðar á síðustu tveimur árum, svo eljan er mikil. Spurð hvort hún máli á hverjum degi svarar hún brosandi: „Já, það er enginn dagur fullkominn nema komast í vinnuna. Þetta er svo gaman.“

Hún kveðst hafa teiknað frá því hún man eftir sér. „Ég var líka í myndvefnaði en fór svolítið illa í hálsliðum og öxlum við vefstólinn því ég er skorpumanneskja og finnst erfitt að hætta þegar ég er komin af stað. En ég hef alltaf málað jafnframt. Saumaði út líka. Hef voða gaman af að fikta og vera í einhverri tilraunastarfsemi!“

Ása útskrifaðist úr Myndlista- og handíðaskóla Íslands árið 1973 og stundaði síðan nám við Konstindustriskolan Göteborgs Universitet árin 1976-1978. Hún hefur allar götur síðan verið virk í myndlist, haldið fjölda einkasýninga og tekið þátt í samsýningum víðs vegar um heim. „Ég sýndi mikið þegar ég bjó í Gautaborg, þá ekki síst vefnað. Á ansi mörg verk í opinberri eigu, bæði þar og hér.“

Ása er fædd og uppalin í Keflavík en býr nú og starfar í Borgarfirði. Þar segir hún umhverfið hafa sín áhrif á sköpun hennar. „Frá heimili mínu og vinnustofu í Lækjarkoti blasir náttúran við og ég held að hún sé á bak við megnið af mínum verkum,“ segir hún. Kveðst vinna myndirnar á flötu teikniborði sem hún standi við og stilli í rétta hæð og áhöldin séu sköfur og fleiri verkfæri því litirnir séu blautir.

Nú er Ása nýkomin heim frá Flórída, þar sem hún dvelur gjarnan yfir veturinn. Finnst henni þá ekki kalt á Íslandi? „Nei, nei, það er allt í lagi með veðrið. En það er langt síðan ég hef haldið sýningu og það stressar mig!“

Sýningin er opin til 5. maí, fimmtudaga, föstudaga, laugardaga og sunnudaga frá klukkan 12 til 17 en lokað er á páskadag. En á opnunardag verður tekið á móti gestum með léttum veitingum, kossum og knúsum og guð má vita hvað!