Snemma árs 44 f.Kr. lýsti Júlíus Sesar sig einvald Rómaveldis. Á þeim tíma voru æðstu stjórnendur í Róm tveir lýðræðislega kjörnir ræðismenn en Sesar sat nú einn að kjötkötlunum eftir að hafa borið sigur úr býtum í borgarastríði gegn kollega sínum, Pompeiusi.
Þótt Sesar væri gríðarlega vinsæll meðal almennings í Róm höfðu margir þingmenn áhyggjur af ákvörðun hans því þeim þótti hún grafa undan þeim gildum sem lýðveldið var byggt á, einna helst sjálfu lýðræðinu.
Hugsjónir tilræðisins
Samsærið hófst með leynilegum fundi þingmannanna Kassíusar og Brútusar sem ákváðu að eitthvað þyrfti að gera til þess að koma í veg fyrir að Sesar myndi krýna sjálfan sig sem konung Rómar.
Þótt það þyrfti í rauninni ekki nema einn mann til að fremja morðið fannst Brútusi mikilvægt að fá valdamikla menn innan veldisins með um borð til þess að veita ódæðinu lögmæti. Morðið átti ekki að vera valdabrölt eða ástríðuglæpur gegn manninum Sesari heldur lögmæt leið borgara til þess að losa sig við einráð.
Þeir Kassíus og Brútus fengu tugi þingmanna til liðs við sig en gættu sín þó á að hafa þá ekki of marga til þess að koma upp um samsærið. Einhverjir samsærismannanna viðruðu hugmyndina um að Antoníus, einn helsti bandamaður Sesars, skyldi einnig vera myrtur en Brútus lagðist gegn því. Taldi hann að ef fleiri menn yrðu drepnir þá myndi það grafa undan réttmæti aðgerðarinnar sem væri byggð á réttlátri hugsjón.
Samsærismennirnir létu til skarar skríða þann 15. mars. Sesar var þá mættur til þings í leikhúsi kenndu við Pompeius því framkvæmdir stóðu yfir á húsi öldungaráðsins. Þegar Sesar settist niður var hann umkringdur af samsærismönnunum sem stungu hann tuttugu og þrisvar sinnum.
Þótt hugmyndin að baki morðinu á Sesari hafi verið að bjarga lýðræðinu varð raunin allt önnur. Oktavíanus, kjörsonur Sesars, gekk í bandalag með Antoníusi og Lepídusi og réðu þeir niðurlögum samsærismannanna. Þar á eftir tók við borgarastyrjöld milli Oktavíanusar og Antoníusar sem lauk með sigri hins fyrrnefnda. Rómverska lýðveldinu lauk endanlega þegar Oktavíanus lét krýna sig keisara, 16. janúar 27 f.Kr.
Vinsæll harðstjóri
„Það er morgunljóst, að minnsta kosti þegar kemur að Brútusi, að hann taldi sig vera að drepa harðstjóra,“ segir Guðmundur J. Guðmundsson sagnfræðingur um þá ákvörðun samsærismannanna að nýta ekki tækifærið til að losa sig við volduga bandamenn Sesars á borð við Antoníus. „Þeir héldu að allir hugsuðu eins og þeir en það kom auðvitað í ljós að svo var ekki og þeir enda á að hrökklast til burtu.“
Var fall lýðveldisins óumflýjanlegt á þessum tíma? Voru þeir bara að framlengja hið óhjákvæmilega?
„Það er alltaf erfitt að segja. Maður heldur alltaf einhvern veginn að hlutirnir hlytu að gerast eins og þeir gerðust en ég reyndar sé ekki í hendi mér hvernig þetta hefði átt að fara öðruvísi í þessu tilfelli,“ svarar Guðmundur. „Stjórnarform lýðveldisins var gjörsamlega gengið úr sér og ringulreiðin áratugina á undan slík að það hlaut að vera að einhver myndi taka sér einræðisvald.“
Ein af ástæðunum fyrir vinsældum Sesars var einmitt hve langleiður rómverskur almenningur var orðinn á spillingu í öldungaráðinu.
„Það má líka taka tillit til þess að á þeim stutta tíma sem hann er við völd þá nær hann að koma ótrúlegum framkvæmdum í gegn,“ bendir Guðmundur á. „Hann byggir upp stóran hluta af Róm og gerir alls kyns breytingar sem bættu hag manna á þessum tíma.“
Sem einráður slapp Sesar þannig við búrókrasíuna sem fylgir oft lýðræðinu.
„Já eða hafði að minnsta kosti tök á henni,“ segir Guðmundur og hlær.
Tógaskyldan kom sér vel
Það virðist ótrúlegt að það hafi verið hægt að ráða svona valdamikinn mann af dögum í almenningsrými.
„Það virðist ekki vera,“ svarar Guðmundur spurður um hvort það hafi engin löggæsla verið á svæðinu. „Hann gekk yfir torgið á leið í öldungaráðið, því þar máttu engir vagnar fara yfir, og hefur greinilega ekki haft neina lífverði með sér. Menn gengu almennt séð ekki vopnaðir í Róm því það var illa séð en tilræðismennirnir leyndu hnífunum undir klæðnaðinum.“
Tóga er kannski betri klæðnaður en margur annar til þess að fela vopn?
„Jú, það er hægt að fela þar ýmislegt!“
