Snemma árs 44 f.Kr. lýsti Júlíus Sesar sig ein­vald Róma­veldis. Á þeim tíma voru æðstu stjórn­endur í Róm tveir lýð­ræðis­lega kjörnir ræðis­menn en Sesar sat nú einn að kjöt­kötlunum eftir að hafa borið sigur úr býtum í borgara­stríði gegn kollega sínum, Pompeiusi.

Þótt Sesar væri gríðar­lega vin­sæll meðal al­mennings í Róm höfðu margir þing­menn á­hyggjur af á­kvörðun hans því þeim þótti hún grafa undan þeim gildum sem lýð­veldið var byggt á, einna helst sjálfu lýð­ræðinu.

Hug­sjónir til­ræðisins

Sam­særið hófst með leyni­legum fundi þing­mannanna Kassíusar og Brútusar sem á­kváðu að eitt­hvað þyrfti að gera til þess að koma í veg fyrir að Sesar myndi krýna sjálfan sig sem konung Rómar.

Þótt það þyrfti í rauninni ekki nema einn mann til að fremja morðið fannst Brútusi mikil­vægt að fá valda­mikla menn innan veldisins með um borð til þess að veita ó­dæðinu lög­mæti. Morðið átti ekki að vera valda­brölt eða ást­ríðu­glæpur gegn manninum Sesari heldur lög­mæt leið borgara til þess að losa sig við ein­ráð.

Þeir Kassíus og Brútus fengu tugi þing­manna til liðs við sig en gættu sín þó á að hafa þá ekki of marga til þess að koma upp um sam­særið. Ein­hverjir sam­særis­mannanna viðruðu hug­myndina um að Antoníus, einn helsti banda­maður Sesars, skyldi einnig vera myrtur en Brútus lagðist gegn því. Taldi hann að ef fleiri menn yrðu drepnir þá myndi það grafa undan rétt­mæti að­gerðarinnar sem væri byggð á rétt­látri hug­sjón.

Sam­særis­mennirnir létu til skarar skríða þann 15. mars. Sesar var þá mættur til þings í leik­húsi kenndu við Pompeius því fram­kvæmdir stóðu yfir á húsi öldunga­ráðsins. Þegar Sesar settist niður var hann um­kringdur af sam­særis­mönnunum sem stungu hann tuttugu og þrisvar sinnum.

Þótt hug­myndin að baki morðinu á Sesari hafi verið að bjarga lýð­ræðinu varð raunin allt önnur. Oktavíanus, kjör­sonur Sesars, gekk í banda­lag með Antoníusi og Lepídusi og réðu þeir niður­lögum sam­særis­mannanna. Þar á eftir tók við borgara­styrj­öld milli Oktavíanusar og Antoníusar sem lauk með sigri hins fyrr­nefnda. Róm­verska lýð­veldinu lauk endan­lega þegar Oktavíanus lét krýna sig keisara, 16. janúar 27 f.Kr.

Vin­sæll harð­stjóri

„Það er morgun­ljóst, að minnsta kosti þegar kemur að Brútusi, að hann taldi sig vera að drepa harð­stjóra,“ segir Guð­mundur J. Guð­munds­son sagn­fræðingur um þá á­kvörðun sam­særis­mannanna að nýta ekki tæki­færið til að losa sig við volduga banda­menn Sesars á borð við Antoníus. „Þeir héldu að allir hugsuðu eins og þeir en það kom auð­vitað í ljós að svo var ekki og þeir enda á að hrökklast til burtu.“

Var fall lýð­veldisins ó­um­flýjan­legt á þessum tíma? Voru þeir bara að fram­lengja hið ó­hjá­kvæmi­lega?

„Það er alltaf erfitt að segja. Maður heldur alltaf ein­hvern veginn að hlutirnir hlytu að gerast eins og þeir gerðust en ég reyndar sé ekki í hendi mér hvernig þetta hefði átt að fara öðru­vísi í þessu til­felli,“ svarar Guð­mundur. „Stjórnar­form lýð­veldisins var gjör­sam­lega gengið úr sér og ringul­reiðin ára­tugina á undan slík að það hlaut að vera að ein­hver myndi taka sér ein­ræðis­vald.“

Ein af á­stæðunum fyrir vin­sældum Sesars var ein­mitt hve lang­leiður róm­verskur al­menningur var orðinn á spillingu í öldunga­ráðinu.

„Það má líka taka til­lit til þess að á þeim stutta tíma sem hann er við völd þá nær hann að koma ó­trú­legum fram­kvæmdum í gegn,“ bendir Guð­mundur á. „Hann byggir upp stóran hluta af Róm og gerir alls kyns breytingar sem bættu hag manna á þessum tíma.“

Sem ein­ráður slapp Sesar þannig við búró­kra­síuna sem fylgir oft lýð­ræðinu.

„Já eða hafði að minnsta kosti tök á henni,“ segir Guð­mundur og hlær.

Tóga­skyldan kom sér vel

Það virðist ó­trú­legt að það hafi verið hægt að ráða svona valda­mikinn mann af dögum í al­mennings­rými.

„Það virðist ekki vera,“ svarar Guð­mundur spurður um hvort það hafi engin lög­gæsla verið á svæðinu. „Hann gekk yfir torgið á leið í öldunga­ráðið, því þar máttu engir vagnar fara yfir, og hefur greini­lega ekki haft neina líf­verði með sér. Menn gengu al­mennt séð ekki vopnaðir í Róm því það var illa séð en til­ræðis­mennirnir leyndu hnífunum undir klæðnaðinum.“

Tóga er kannski betri klæðnaður en margur annar til þess að fela vopn?

„Jú, það er hægt að fela þar ýmis­legt!“

Guðmundur J. Guðmundsson
Fréttablaðið/GVA