Sendiráð Indlands á Íslandi fagnar 70 ára afmæli stjórnarskrárinnar í dag með dagskrá sem allir eru velkomnir í. Hún hefst klukkan 17 og er haldin í indverska sendiráðinu á Túngötu 7.

T. Armstrong Changsan, sendiherra Indlands á Íslandi, les fyrst texta úr formála stjórnarskrárinnar, sem er mikil að vöxtum, og Guðmundur Andri Thorsson, 2. vara­formaður í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis, fer um þann doðrant nokkrum orðum. Næst á dagskránni er ávarp prófessors Pranay Krishna Srivastava frá Allahabad-háskóla, stutt heimildarmynd verður sýnd og einnig verður ljósmyndasýning um stjórnarskrá Indlands.

Indland er með stærstu löndum heims og þar búa nú um 1,4 milljarðar. Frá 26. nóvember árið 1949, þegar landið fékk sjálfstæði frá Bretum, lýðveldi var stofnað og stjórnarskráin tók gildi hefur margt gerst, að sögn T. Arm­strong sendiherra. Ein af breytingunum er aukinn hagvöxtur.

„Fyrir 300 árum var Indland með 20% af hagkerfi heimsins en eftir að Bretar tóku við stjórn þar 1858 hrapaði það niður í tvö prósent á tímabili. En nú er Indland með 5. stærsta hagkerfi í heimi og eftir tíu ár er búist við að það verði í þriðja sæti, framfarirnar eru svo miklar á mörgum sviðum.“ Hann biður fólk að staðfesta þátttöku í afmælisfagnaðinum á cons.reykjavik@mea.gov.in og ítrekar að allir séu velkomnir.

Fréttin hefur verið uppfærð.