Þetta eru lög frá þeim tíma sem fólk sveif um í gömlu dönsunum. Þau voru send inn í danslagakeppni SKT (Skemmtiklúbbs templara) árið 1953 á nótum sem komu ekki til baka,“ segir Lilja Eggertsdóttir tónlistarkennari. Hún er potturinn og pannan bak við nýjan disk sem er í smíðum, sá er með fjórum lögum eftir föður hennar, Breiðfirðinginn Eggert Thorberg Kjartansson. „Pabbi söng lögin fyrir mig og ég tók þau upp á símann fyrir tveimur árum, útsetti þau og ákvað að búa til plötu. Bróðir minn, Snorri Pétur, samdi texta við þrjú þeirra en pabbi orti sjálfur textann Í kvöld til mömmu, Hólmfríðar Gísladóttur, þegar þau voru ung.“

Rómantískur múrari

Lögin fjögur eru þau einu sem til eru eftir Eggert, að sögn Lilju, dóttur hans. „Pabbi samdi vals sem honum þótti nokkuð góður en man hann ekki lengur. Hann verður níræður á árinu og það er eðlilegt að eitthvað hafi tapast á langri leið.“ En heyrði hún lögin hans aldrei flutt þegar hún var að alast upp? „Elsti bróðir minn, Kjartan Eggertsson, er tónlistarmaður og pabbi söng fyrir hann lagið Í kvöld, einhvern tíma þegar ég var smástelpa. Kjartan útsetti það fyrir kór. Það lag samdi pabbi til mömmu á sínum tíma og við höfum sungið það raddað á stórum stundum í lífi þeirra, þannig að það er þekkt innan fjölskyldunnar.“

Langeyjarþema

Lilja fræðir mig um að Eggert, faðir hennar, sé fæddur og uppalinn í Fremri-Langey á Breiðafirði. „Pabbi var æðarbóndi og hefur farið á hverju einasta ári vestur að sinna varpinu. Við höfum líka verið þar mikið systkinin, sérstaklega Snorri bróðir, hann er mikið Langeyjarbarn – þeir eru það nú reyndar allir bræðurnir, Gísli Karel, Eggert og Kjartan. Mamma var í húsmæðraskólanum á Staðarfelli á sínum tíma þannig að þau kynntust fyrir vestan.“

Eitt lagið á diskinum heitir Langeyjarrúmba, Lilja kveðst hafa skrifað það lag líka í swingútgáfu og faðir hennar hafi verið ánægður með það. „Heyrðu, þetta er jafnvel enn betra,“ sagði hann, enda er hann gullaldar-djass maður. Hann er múrari sem hefur alltaf haft gaman af tónlist, spilaði aðeins á gítar og var í kór múrara. Foreldrar mínir settu okkur systkinin öll í tónlistarnám, við erum fimm og tvö okkar störfum sem tónlistarkennarar.“

Í kvöld er allt svo undarlega hljótt – lögin sem glötuðust, voru tekin upp í Stúdíó Sýrlandi og Hljóðrita í mars 2021. Hægt er að leggja verkefninu lið á Karolina Fund.

Kristín Sigurðardóttir, Lilja Eggertsdóttir og Særún Rúnudóttir, sem skipa tríóið Skel, syngja lögin. Mynd/aðsend