Ég er bara í Bugtinni út af Skeiðarársandi og er að leggja af stað í land með 360 tonn þannig að hægt sé að starta vinnslunni. Þetta er bara smáskammtur,“ segir Jóhannes Danner, skipstjóri á Jónu Eðvalds, öðru af tveimur uppsjávarveiðiskipum Skinneyjar-Þinganess á Höfn. Hitt er Ásgrímur Halldórsson. Þegar ég heyri í honum er ekki liðinn sólarhringur frá því hann sigldi út um Hornafjarðarós til fundar við loðnuna. Hann segir skipverja hafa verið káta að komast loksins á slíkar veiðar eftir tveggja ára hlé. Býst hann við að koma að bryggju um kvöldið og halda af stað aftur næsta morgun. „Svo lengist leiðin á miðin með hverjum deginum,“ lýsir hann.

Aflann um borð kveðst Jóhannes hafa fengið í tveimur köstum og svo hafi verið dælt af Ásgrími sem haldi áfram veiðum. „Það er ekkert mál að dæla á milli ef veður og sjólag leyfir. Þegar við erum með fullfermi stílum við upp á að koma með svona 800 tonn í vinnsluna.“

Þótt Dannerinn, eins og hann er kallaður, sé glaður að hafa fundið loðnuna segir hann ekki alveg normal ástand á miðunum, hún sé svo dreifð og hafi ekki hlaupið í stórar torfur. En skyldu vera mörg skip á svæðinu? „Við erum níu, fjórir Færeyingar, tveir Vestmannaeyingar, tveir Hornfirðingar og Börkur frá Neskaupstað og það er ágætis veður þrátt fyrir að hann hafi nú ekkert spáð of vel. Þetta er næstum eins og best verður á kosið, vantar bara að loðnan væri þéttari. Ég held að flotinn sé allur að fara af stað, þannig að veiðarnar eru að fara á fullt skrið og taka sjálfsagt fljótt af, því kvótinn er ekki stór í sögulegu samhengi,“ segir Jóhannes og upplýsir að Skinney-Þinganes hafi fengið 5.400 tonn í allt.

Í hvernig vinnslu fer þessi fyrsti farmur? „Hann verður bara frystur á Japan. Hrognafylling hefur verið svona 14–15% hér á svæðinu. Það er akkúrat það sem Japaninn vill, þetta er alveg hágæðahráefni. Nú er aðalslagurinn um hvort menn fái nógu mikið af hrygnu versus hæng. Kröfurnar verða alltaf meiri og meiri. Kvenkynið er auðvitað vinsælla, það segir sig sjálft!“

Jóna Eðvalds var smíðuð í Noregi árið 1975, þá sem frystiskip. Mynd/Skinney-Þinganes.