„Jón Múli hefði átt aldarafmæli 31. mars síðastliðinn og við ætluðum að halda þessa tónleika þá en gátum ekki vegna faraldursins,“ segir Ólafur Jónsson, formaður Jazzklúbbsins Múlans, um minningartónleika í kvöld í Kaldalóni í Hörpu klukkan 20. Þar verða leikin lög eftir Jón Múla Árnason.

Ólafur segir einvalalið koma fram, alls rúmlega 20 manns. Flutt verði sex atriði og gert ráð fyrir að í lokin spili allir saman.

„Þetta verður veisla.“

Jón Múli í hljóðstofu útvarpsins 1962, kannski að kynna jazztónlist! Mynd/Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Bragi Guðmundsson.

Lög Jóns Múla voru samin fyrir leikrit eftir þá bræður, hann og Jónas. Ólafur segir höfundinn hafa verið undir áhrifum frá söngleikjatónlist.

„Lögin hans eru djössuð og á tónleikunum eru þau bara flutt á hljóðfæri, þetta eru svo sterkar og flottar tónsmíðar. Flutningurinn verður fjölbreyttur því þarna verða margvísleg bönd, allt frá dúettum upp í tíu manna sveitir.“

Jazzklúbburinn Múlinn var nefndur Jóni Múla til heiðurs þegar hann var stofnaður í árslok 1997, minnist Ólafur. Tónleikarnir í kvöld eru þeir fyrstu af níu í sumarröðinni sem verður fjölbreytt, að hans sögn. Flestir hinna verða í Flóanum.