Þrátt fyrir að Þingeyingar hampi sinni tónlistarmenningu hefur frú Elísabetar á Grenjaðarstað ekki verið getið sem tónskálds í þeirri umræðu. Minning hennar sem slíkrar virðist nánast alveg gleymd. Þó var hún ein fyrsta íslenskra kvenna til að fá birt lag eftir sig á prenti og líka að gefa út sönglagahefti,“ segir Fanney Kr. Snjólaugardóttir, tónlistarkona á Akureyri.

Fanney er virk í samtökunum KÍTÓN (Konur í tónlist) og kveðst undanfarið hafa verið í „femínistakasti“ fyrir hönd starfssystur sinnar frú Maríu Elísabetar frá Grenjaðarstað (1869-1945). „Frú Elísabet hefði orðið 150 ára 1. janúar 2019 og af því tilefni ætla ég, í samstarfi við gott fólk, að birta lögin hennar á Spotify og stofna minningarsjóð til styrktar íslenskum kventónskáldum,“ heitir Fanney og lætur ekki þar við sitja. „Á nýja árinu munum við auk þess frumsýna heimildarmynd um hana frú Elísabetu og halda hátíð henni til heiðurs þann 19. júní í Hofi á Akureyri.“

Fanney er söngkona. Hún segir þær Helgu Kvam píanóleikara hafa flutt lög frú Elísabetar á tónleikum. „En þegar ég hafði kynnst þessum frábæru lögum langaði mig að taka verkefnið lengra og leyfa almenningi njóta þeirra.“

[email protected]