Við erum bara hress, bæði heima að fást við okkar hugðarefni, skrif og listmálun. Eiginlega er það dagvinnan okkar eins og stendur. Sonur okkar er í menntaskóla,“ segir verðlaunarithöfundurinn Tapio Koivukari, inntur eftir högum sínum og fjölskyldunnar sem býr í Rauma í Finnlandi. Eiginkona hans, myndlistarkonan Hulda Leifsdóttir, er rammíslensk – fædd og uppalin á Ísafirði en flutti til Finnlands 1993, eftir að hafa kynnst Tapio fyrir vestan.

Ástarljóð milli lína

Tapio er þekktur hér á landi fyrir skáldsögur í þýðingum Sigurðar Karlssonar. En ljóðabókin Innfirðir, sem kom út á síðasta ári, er sú fyrsta sem hann skrifar á íslensku. „Ég hafði prófað að yrkja á íslensku einhvern tíma. Svo bað Gerður Kristný mig að þýða ljóð eftir sig og finnsk skáldkona, Heli Laaksonen, nefndi að ég ætti að prófa að skrifa ljóð á okkar mállýsku. Þannig fór að ég orti slatta af ljóðum, fyrst á rámisku, svo á íslensku – og líka öfugt. Ljóðin ganga í torfum, koma stundum en líður langt á milli.“ Í nýju bókinni yrkir hann um sögu, sjó, eyjar, skip, dauða og að vera foreldri. „Ljóðin fjalla um þann leyndardóm sem við köllum lífið,“ segir hann. „Tvö eru um foreldra mína, Stríðsmaður og Flóttakona. Mörg eru ástarljóð svona á milli lína. Líka nokkur um Rússa, mér finnst þeirra menningarheimur heillandi og ógnvekjandi í senn.“

Ísbjörg fyrsta þýðingin

Á Ísafirði byrjaði Tapio að þýða. „Ég heiti Ísbjörg eftir Vigdísi Gríms var fyrsta bókin, sú var þungur róður,“ rifjar hann upp. Nú kveðst hann vinna að skáldsögu sem gerist í Helsinki á 9. áratug liðinnar aldar. „Ég nota eigin minningar að hluta til sem efnivið,“ segir hann. Það kemur ekki á óvart eftir að hafa lesið ljóð hans um uppskipun og fiskvinnslu. „Ég var oft í uppskipun á námsárunum, bæði í Helsinki og Rauma, svo hef ég verið að smíða líka. Vann smá tíma við ráðhúsbyggingu í Reykjavík þegar ég kom fyrst en var svo að kenna á 10. áratugnum áður en ég gerðist rithöfundur að aðalstarfi,“ lýsir Tapio, sem er guðfræðingur með kennsluréttindi.

Það var á árunum 1989 og 1993 sem Tapio bjó á Íslandi. „Það er langt síðan en við höfum nú komið í heimsóknir. Af hverju ég kom fyrst? Ég hugsa að það hafi verið farg kynslóðanna, ég er innflytjandi í þriðja ættlegg. Afi var í Massachusetts, pabbi var í Svíþjóð, eitthvert varð ég að fara og mig langaði á norðlægar slóðir og í verkamannavinnu, það væri „í alvörunni“. Tók þessa verkamannatörn 1989, svo var ég smíðakennari á Ísafirði 1990 til 93.“

Tapio kveðst lesa bókmenntir á finnsku, íslensku og sænsku nokkuð reglulega, stundum á ensku, einkum fræðibækur. „Á eistnesku les ég smásögur og fréttir, reyni að læra það mál betur. Svo kann ég smá hrafl í þýsku og rússnesku en ekki nóg til að lesa bækur.“ Hann segir þau hjón hafa fengið glás af íslenskum bókum fyrir jólin, telur upp: Undir Yggdrasil, Dýralíf, Eldarnir og Fjarvera þín er myrkur – og klykkir út með Skugga-Baldri eftir Ólínu Þorvarðar.

Tapio með ljóðabókina sína, Innfirðir.